Erlent

Sjötíu manns hafa látist vegna svínaflensu í Mexíkó

Guðjón Helgason skrifar
Sérfræðingar Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar eru búnir undir að þurfa að einangra með hraði hluta Mexíkó og Bandaríkjanna þar sem ný tegund svínaflensu hefur greinst í fólki. Talið er að flensan hafi dregið nærri sjötíu manns til bana í Mexíkó.

Sérfræðingar segja um blöndu af svínaflensu, venjulegri inflúensu og afbrigði fuglaflensu sé að ræða en þessi samsetning hafi ekki sést fyrr.

Um þúsund manns hafa greinst með þessa skæða flensu í Mexíkó sem yfirvöld þar segja að hafi líkast til dregið nærri sjötíu sjúklinga til dauða. Flestir hinna látnu munu ungt fólk en ekki ung börn og aldraðir líkt og oft þegar um flensu er að ræða. Átta hafa greinst í Kaliforníu og Texas í Bandaríkjunum en enginn látist þar. Verið er að kanna hvort nemendur í gagnfræðaskóla í Queens hverfinu í New York sem liggja nú veikir hafi sýkst af flensunni.

Venjulega svínaflensa er öndunarfærasjúkdómur sem leggst á svín. Mannfók sýkist sjaldnast en þó munu dæmi um það en þá oftast ef fólk hefur komist í tæri við svín. Örfá dæmi eru um að sjúkdómurinn hafi smitast milli fólks. Þau tilfelli hafa verið rannsökuð sérstaklega af ótta yfirvalda um að til verði stofn af flensunni sem smitist auðveldlega milli fólks en það geti valdið útbreiddri farsótt eða jafnvel heimsfaraldri.

Búið er að aflýsa opinberum viðburðum og fólk gengur um með skurðlækagrímur á götum Mexíkóborgar ef það þá þorir út meðal fólks. Jose Angel Cordova, heilbrigðisráðherra Mexíkó, hvatt í gær landa sína til að forðast fjölmenni og ganga áfram með grímurnar. Skólum hefur verið lokað og eins opinberum byggingum og stofnunum.

Heilbrigðisstofnanir í Mexíkó og Bandaríkjunum rannsaka nú sjúkdóminn og reyna að hefta útbreiðslu hans.

Ekki mun talið ástæða til að lýsa yfir að um farsótt eða faraldur sé að ræða en Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur skipað neyðarteymi vegna málsins og sent sérfræðinga á þau svæði þar sem sjúkdómurinn hefur greinst. Fulltrúar stofnunarinnar munu búnir undir að einangra hluta Mexíkó og Bandaríkjanna með hraði gerist þess þörf. Talsmaður Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar segir fulltrúa hennar hafa gríðarmiklar áhyggjur af málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×