Handbolti

Kiel slátraði Rhein-Neckar Löwen

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Lærisveinar Alfreðs voru frábærir í dag.
Lærisveinar Alfreðs voru frábærir í dag. Nordic Photos/Bongarts

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Kiel eru komnir með annan fótinn í úrslit Meistaradeildarinnar eftir stórsigur, 37-23, á Rhein-Neckar Löwen í fyrri leik liðanna í undanúrslitum.

Fyrri hálfleikur hjá Kiel kemst eins nálægt því að vera fullkominn hálfleikur og hægt er. Liðið spilaði stórbrotinn handbolta og allt gekk upp.

Frábær varnarleikur, lygileg markvarsla hjá Thierry Omeyer og svo voru keyrð mögnuð hraðaupphlaup miskunnarlaust í andlitið á leikmönnum Löwen.

Hálfleikstölur 20-8 og staðan hefði verið enn verri fyrir Löwen ef Henning Fritz hefði ekki varið eins vel og hann gerði.

Löwen náði að saxa á forskotið í síðari hálfleik, náði muninum meðal annars niður í átta mörk en lokakaflinn hjá Kiel var frábær og þeir hafa svo gott sem gengið frá þessu einvígi.

Filip Jicha stórkostlegur í liði Kiel með 12 mörk og Nikola Karabatic einnig sterkur með 6. Omeyer fór hamförum í markinu og varði hátt í 30 skot.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði fimm mörk fyrir Löwen og var með skástu mönnum liðsins.

Gamla brýnið Jackson Richardson kom aðeins við sögu hjá Löwen í fyrri hálfleik en frammistaða hans þar fer seint í sögubækurnar.

Það bendir því margt til þess að Kiel og Ciudad Real mætist í úrslitum annað árið í röð en Ciudad vann útileikinn gegn Hamborg með einu marki og stendur vel að vígi fyrir seinni leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×