Innlent

Lág tilboð í Hvítárbrú

Ræktunarsamband Flóa og Skeiða bauð lægst í gerð nýrrar 270 metra langrar brúar yfir Hvítá í Árnessýslu á móts við Flúðir. Óvenju margir verktakar börðust afar hart um verkið og munaði innan við einu prósenti á þremur lægstu tilboðum.

Nýja Hvítárbrúin verður áttunda lengsta brú landsins en áætlað er að þarna verði hægt að aka yfir haustið 2010, eftir sextán mánuði. Jafnframt felst í verkinu að leggja átta kílómetra langa tengivegi að brúnni en með henni styttist leiðin milli Reykholts og Flúða um 26 kílómetra.

Greinilegt er að verktaka landsins hungrar í verkefni um þessar mundir en alls bárust 24 tilboð í verkið, sem er eitt það stærsta sem Vegagerðin býður út í ár. Ræktunarsamband Flóa og Skeiða bauð lægst, tæpar 630 milljónir króna, eða 67,3 prósent af kostnaðaráætlun, upp á 934 milljónir króna, sem þykir lágt miðað við hve stór hluti verksins er brúarsmíði. Athygli vakti hve litlu munaði á lægstu boðum og að aðeins eitt boð var yfir kostnaðaráætlun, en hæsta boð var upp á 1,7 milljarða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×