Viðskipti innlent

Össur á markaði í áratug

Tíu ára skráningu Össurar á markað var fagnað í Kauphöllinni á mánudag.
Tíu ára skráningu Össurar á markað var fagnað í Kauphöllinni á mánudag.
„Þetta hefur verið viðburðaríkur tími,“ segir Jón Sigurðsson, forstjóri stoðtækjafyrirtækisins Össurar, en á sunnudag voru liðin tíu ár frá því að fyrirtækið var skráð á markað, þá Verðbréfaþing.

Stoðtækjafyrirtækið var stofnað árið 1971 og tók Jón við forstjórastólnum árið 1996. Hann segir margt hafa breyst síðan þá. Starfsmenn þá hafi verið á milli fimmtíu til hundrað en 1.600 í dag og fyrirtækið með starfsemi víða um heim.

Þegar fyrsta viðskiptadegi lauk með bréf Össurar á markaði fyrir áratug nam markaðsverðmæti þess rúmum sjö milljörðum króna. Össur Kristinsson, stofnandi fyrirtækisins, og fjölskylda hans áttu þá um helming hlutabréfanna. Hann er nú skráður fyrir rúmum átta prósenta hlut. Stærstu hluthafarnir í dag eru danska fyrirtækið William Demant Invest og Eyrir Invest með sextíu prósenta hlut.

Össur er á meðal elstu fyrirtækja sem skráð eru á markað hér. Markaðsverðmæti þess nam í gær tæpum 52,5 milljörðum króna og er það verðmætasta íslenska félagið sem skráð er í Kauphöllina.

„Við vorum mjög lítið fyrirtæki árið 1999 og því mjög erfitt að skrá það erlendis. Nú erum við miklu stærri,“ segir Jón Sigurðsson. Skref var stigið í sögu Össurar í byrjun september en þá voru hlutabréf félagsins skráð á markað í Kauphöllinni í Kaupmannahöfn í Danmörku. - jab





Fleiri fréttir

Sjá meira


×