Erlent

Langþráður sigur repúblikana

Vonbrigði í Maine Þau gátu ekki leynt vonbrigðum sínum eftir að kjósendur í Maine felldu lög um hjónaband samkynhneigðra.fréttablaðið/AP
Vonbrigði í Maine Þau gátu ekki leynt vonbrigðum sínum eftir að kjósendur í Maine felldu lög um hjónaband samkynhneigðra.fréttablaðið/AP

Demókratar töpuðu ríkisstjórakosningum í Virginíu og New Jersey, sem haldnar voru í gær. Robert Gibbs, fréttafulltrúi Bandaríkjaforseta, sagði þetta tap samt ekki segja neitt um stöðu Baracks Obama, því kosningarnar hefðu snúist að mestu um innanríkismálefni.

Repúblikanar voru hins vegar hæstánægðir með sigrana, eftir að hafa misst bæði forsetaembættið á síðasta ári og meirihluta á þjóðþinginu í Washington árið 2006.

Michael Steele, flokksformaður repúblikana, sagði úrslitin sýna að flokkurinn væri kominn á skrið á ný, hann hefði fundið rödd sína.

Demókratar gátu hins vegar huggað sig við að ná þingsæti í New York-ríki af repúblikönum.

Í Maine urðu síðan óvænt úrslit þegar kosið var um lög um hjónaband samkynhneigðra. Ríkisstjórinn og helstu leiðtogar ríkisþingsins voru fylgjandi lögunum, og áhrifamestu fjölmiðlar í ríkinu studdu þau einnig, en allt kom fyrir ekki: kjósendur felldu málið.

Tillögur um að leyfa hjónaband samkynhneigðra hafa nú verið bornar undir kjósendur í 31 ríki Bandaríkjanna, og alls staðar verið felldar. Baráttumenn fyrir réttindum samkynhneigðra höfðu vonast til þess að þeirri þróun yrði snúið við í Maine.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×