Viðskipti innlent

Seðlabankinn ánægður með viðræður um gjaldeyrismál

Seðlabankinn er ánægður með árangurinn af viðræðum sínum við útflutningsaðila um framkvæmdina á reglum varðandi gjaldeyrishöftin. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum er aðeins eftir að ræða við örfáa af þeim rúmlega 20 aðilum sem bankinn boðaði á sinn fund fyrr í sumar.

„Varðandi viðræður við fyrirtæki um reglur um gjaldeyrismál þá er á þessu stigi aðeins hægt að segja að þær hafi gengið vel og Seðlabankinn sé ánægður með þær," segir Stefán Jóhann Stefánsson ritstjóri Seðlabankans. „Með þessum viðræðum fæst meðal annars betri mynd af því hvernig reglurnar virka í starfsemi fyrirtækjanna."

Stefán Jóhann segir ennfremur að væntanlega verði komið nánar inn á þetta í þeim skýrslum eða ritum sem bankinn gefur út á næstunni.

Eins og fram hefur komið í fréttum fóru þessar viðræður af stað sökum þess að fregnir bárust um að útflutningsaðilar fylgdu ekki reglunum sem gilda um gjaldeyrishöftin og því hafi svartur markaður með gjaldeyri komist í gang.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×