Skoðun

Ómálefnalegri gagnrýni mótmælt

Í lok október sl. féll dómur í Hæstarétti Íslands í máli Vilhjálms Bjarnasonar gegn greinarhöfundum, fyrrverandi stjórnarmönnum Glitnis, vegna kaupa Glitnis á hlutafé fráfarandi bankastjóra Glitnis við starfslok hans í apríl 2007. Hæstiréttur sýknaði greinarhöfunda og sneri þar með við dómi héraðsdóms frá því í janúar á þessu ári.

Allt frá því að Hæstiréttur kvað upp dóm sinn hafa hinir ýmsu aðilar gagnrýnt umræddan dóm og býsnast yfir niðurstöðu Hæstaréttar. Þessir aðilar eiga það þó allir sammerkt að vera ekki lögfræðimenntaðir. Tveir hæstaréttarlögmenn, Brynjar Níelsson og Jón Magnússon, hafa tjáð sig og telja dóm Hæstaréttar réttan. Það sama hefur Jóhannes Rúnar Jóhannesson, hrl. og aðjúnkt við lagadeild Háskólans í Reykjavík, látið hafa eftir sér á fundi sem haldinn var í Háskólanum í Reykjavík hinn 4. nóvember s.l. en þar lýsti hann því yfir að Hæstiréttur hefði staðist prófið.

Fremstur í flokki gagnrýnenda á dóm Hæstaréttar hefur farið sjálfur stefnandinn, Vilhjálmur Bjarnason, sem telur Hæstarétt Íslands „senda skelfileg skilaboð" til samfélagsins um að „allt sé heimilt". Hvorki Vilhjálmur né aðrir sem tekið hafa undir málflutning hans hafa fært rök fyrir því hvernig Hæstiréttur átti að geta litið framhjá kjarna málsins, nefnilega að stjórn Glitnis hafði lögmæta heimild hluthafafundar til að kaupa eigin bréf á allt að 10% hærra verði en markaðsgengi og að umrædd viðskipti voru innan þeirra marka.

Hæstiréttur og dómar hans eru ekki yfir gagnrýni hafnir. Slíka gagnrýni hlýtur þó að þurfa að byggja á málefnalegum röksemdum og virðingu fyrir landsins lögum en ekki tilfinningum eða óskhyggju.

Enn sem komið er hefur enginn sett fram efnislega og lögfræðilega greiningu á niðurstöðu Hæstaréttar og velt vöngum yfir því af hverju slíkur munur er á niðurstöðu hans og niðurstöðu héraðsdóms. Það verður væntanlega gert síðar, enda ýmislegt við umræddan dóm héraðsdóms að athuga.

Vegna umfjöllunar um dóm Hæstaréttar vilja greinarhöfundar árétta og útskýra þrjú atriði sem haldið hefur verið fram undanfarnar vikur og hafa að mati greinarhöfunda verið byggð á misskilningi viðkomandi aðila.

Fyrir það fyrsta hefur því verið haldið fram að fráleitt sé að íslensk lög hafi að geyma reglu er veiti stjórn heimild til að „mismuna hluthöfum" eins og það hefur verið orðað. Hafa ýmsir farið fram á lagabreytingu vegna þessa og enn aðrir tekið svo sterkt til orða að framvegis verði ekki hægt að kaupa hlutabréf í hlutafélögum skráðum í kauphöll. Hvað þetta varðar telja greinarhöfundar rétt að benda á að umrætt ákvæði hlutafélagalaga, það er 55. grein laganna sem heimilar stjórn kaup á eigin hlutum félags liggi fyrir heimild hluthafafundar til þess, kemur inn í lög með innleiðingu 2. félagaréttartilskipunar Evrópusambandsins. Um er að ræða ákvæði sem er í félagaréttarlöggjöf flestra ef ekki allra ríkja Evrópusambandsins. Þarna er því ekki um heimatilbúið lagaákvæði að ræða heldur heimild sem er til staðar í flestum öðrum vestrænum ríkjum. Eiga rök fyrrgreindra aðila því væntanlega einnig við um fjárfestingar í hlutafélögum í kauphöll annarra vestrænna ríkja. Slíkt stenst auðvitað ekki.

Rétt er að árétta að á þeim tíma sem hlutabréfin voru keypt mótmælti enginn hluthafi í Glitni viðskiptunum, þar með talinn Vilhjálmur Bjarnason. Voru þó næg tækifæri til þess, enda kaupin tilkynnt til kauphallar eins og lög gera ráð fyrir og því á allra vitorði. Greinarhöfundar vísa ásökunum um mismunun hluthafa á bug; þvert á móti voru kaupin gerð með hagsmuni hluthafa að leiðarljósi.

Í annan stað hefur því verið haldið fram að túlkun Hæstaréttar um hámarks- og lágmarksverð hluta sem hluthafafundur heimilar stjórn að kaupa sé „loðin og teygjanleg" og að Hæstiréttur hafi með dómnum skapað „gúmmíkenningu" um verðmæti hlutabréfa. Að mati greinarhöfunda stenst þessi skoðun ekki og verðskuldar sjálf að vera kennd við gúmmí. Fræðimenn á öllum Norðurlöndunum, auk fjölda annarra landa m.a. Þýskalands, hafa sýnt fram á að heimilt og viðurkennt sé að ákveða verð hlutafjár, sem stjórn er gefin heimild til að kaupa, með vísan til vikmarka (prósentustigs) frá skráðu gengi í kauphöll á hverjum tíma. Með því séu ákvæði fyrrgreindrar félagaréttartilskipunar og löggjöf viðkomandi landa uppfyllt. Niðurstaða Hæstaréttar var því í fullu samræmi við þá lögskýringu sem ýmsar þjóðir sem við berum okkur saman við hafa beitt.

Í þriðja lagi hefur því verið haldið fram að lokamálsgrein dómsins sé einhvers konar vísbending eða herhvöt til skilanefndar Gamla Glitnis um að hefja nú þegar málaferli á hendur greinarhöfundum vegna brota gagnvart félaginu. Greinarhöfundar telja þetta fráleitt. Hæstiréttur hefur komist að því að umrædd kaup brutu ekki gegn jafnræðisreglu hlutafélagalaga, með vísan til 76. greinar laganna, gagnvart hluthöfum. Þar sem umrædd kaup voru ekki ólögmæt, auk þess sem bankinn varð ekki fyrir tjóni, er afar langsótt að ímynda sér að bankinn geti átt skaðabótakröfu á hendur greinarhöfundum. Við teljum að með lokamálsgrein dómsins sé Hæstiréttur, líkt og hann hefur gert í fjölda annarra mála, einungis að upplýsa um afstöðu réttarins til þess hvaða mál hluthafar geta í framtíðinni höfðað á hendur stjórnendum og hvaða mál félagið sjálft þurfi að höfða. Telja greinarhöfundar ekki vanþörf á slíkri leiðbeiningarreglu að teknu tilliti til fréttaflutnings undanfarinna vikna og mánaða.

Niðurstaða Hæstaréttar var í fullu samræmi við lög og túlkun lagaákvæða, bæði hér á landi og erlendis. Ómálefnalegar fullyrðingar og gífuryrði breyta engu þar um og eru til þess eins að draga úr tiltrú almennings á dómstólum landsins, nokkuð sem varhugavert er að gera á svo órökstuddan hátt í því ástandi er við búum við í dag.

Höfundar eru fyrrverandi stjórnarmenn í Glitni banka hf.




Skoðun

Sjá meira


×