Erlent

Umönnun aldraðra eykur drykkju Breta

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Gripið í glasið til að létta á þrýstingnum frá þeirri gömlu.
Gripið í glasið til að létta á þrýstingnum frá þeirri gömlu.

Umönnun eldri ættingja er orðin bresku millistéttarfólki svo þungbær að hún hefur valdið stóraukinni drykkju.

Athugun Joseph Rowntree-velferðarstofnunarinnar í Bretlandi leiddi í ljós að áfengisneysla hefur tvöfaldast hjá aldurshópnum 45 - 64 ára síðustu 15 árin. Fyrir eiga Bretar Evrópumet í unglingadrykkju svo það má segja að farið sé að syrta í álinn hjá heimsveldinu gamalgróna. En hvað veldur tvöfölduninni? Jú, það er álagið sem fylgir því að annast foreldra og aðra ættingja sem eru að verða undir í glímunni eilífu við elli kerlingu.

Þessi umönnun virðist æði þungbær þar sem árin 1992 - 2006 jókst meðaláfengisneysla þessa hóps úr tveimur og hálfu í tæplega fimm glös á viku og er þá miðað við staðlað 175 millilítra vínglas. Nú er talið að meira en þrjár milljónir Breta neyðist til þess að hlaupa undir bagga með foreldrum sínum fjárhagslega eftir að fjármálakerfið hrundi og lífeyrisgreiðslur hættu að duga elstu kynslóðinni til þess að draga fram lífið.

Ofan á það annast margar milljónir foreldra sem geta ekki lengur komist hjálparlaust gegnum daglegt líf og í mörgum tilfellum búa hinir aldurhnignu foreldrar á heimilum barna sinna. Rowntree-stofnunin kallar eftir athygli breskra ráðamanna og skorar á þá að hækka áfengisverð í þeirri viðleitni að draga úr þorstanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×