Innlent

Efnisgjöld skila 200 milljónum í kassann

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra. Mynd/GVA
Menntamálaráðherra lagði frumvarp fyrir Alþingi í gær sem heimilar framhaldsskólum að innheimta efnisgjald af nemendum sem njóta verklegrar kennslu. Ákvæðið er til bráðabirgða næstu þrjú árin.

Samkvæmt lögum sem nú gilda og samþykkt voru 2008 er skólunum óheimilt að innheimta gjald fyrir efni sem nemendum er látið í té samkvæmt einhliða ákvörðun skóla, nema þeir hafi af því ávinning eða sérstök not. Ákvæði hinna nýju laga veitir þeim öllu afdráttarlausari heimild til gjaldtöku.

Að hámarki mega þeir innheimta 25 þúsund krónur á önn, eða fimmtíu þúsund krónur alls.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að verði ekkert að gert munu framhaldsskólalögin leiða til aukins kostnaðar fyrir verknámsskóla umfram þær kröfur sem gerðar hafa verið um hagræðingu innan framhaldsskólans.

Þá kemur fram að framhaldsskólarnir innheimtu um tvöhundruð milljónir króna í formi efnisgjalda árið 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×