Erlent

Sádi-Arabar bjóða bæði kyn velkomin í háskóla

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Skólinn.
Skólinn.

Sádi-Arabar hafa opnað sinn fyrsta háskóla sem stendur stúdentum af báðum kynjum opinn.

Þessi merkilegi atburður varð í gær en það er Abdullah-vísinda- og tækniháskólinn í Thuwal, við strönd Rauðahafsins, sem reið á vaðið og opnaði dyr sínar báðum kynjum. Skólinn heitir í höfuðið á Abdullah, konungi Sádi-Arabíu, sem hefur fylgt þeirri stefnu, síðan hann tók við embætti árið 2005, að færa ríki sitt örlítið nær nútímanum í félagslegum og menningarlegum skilningi.

Þessi stefna nýtur greinilega vinsælda og eru þegar 800 stúdentar skráðir til náms við Abdullah-skólann sem skartar rúmlega 70 prófessorsstöðum. Þá er skólinn vel búinn rannsóknartækjum og skrifar John Burgess, bandarískur fyrrverandi sendiráðsstarfsmaður, búsettur í Sádi-Arabíu, á vefsíðu sinni að enginn háskóli í heiminum standi jafn-vel að vígi tæknilega séð og þessi.

Helsta markmið skólans er að byggja upp stétt sádiarabískra vísindamanna sem virðist þó fara hægt af stað þar sem aðeins 15 prósent nemendanna eru Sádar. Hin 85 prósentin koma frá alls 61 þjóðlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×