Erlent

Pláss fyrir Þórshöfn, Raufarhöfn og Svalbarðseyri + 5

Óli Tynes skrifar
Airbus 380 er stærsta farþegaflugvél í heiminum.
Airbus 380 er stærsta farþegaflugvél í heiminum.

Ef alla íbúa Þórshafnar, Raufarhafnar og Svalbarðseyrar langði að skreppa til Réunion eyjar á Indlandshafi myndu þeir væntanlega fljúga með Airbus 380 þotu flugfélagsins Air Austral.

Þeir kæmust allir fyrir í vélinni og gætu meira að segja boðið með sér fimm vinum frá einhverjum nágrannabæ.

Air Austral hefur pantað sér þéttsetnustu útgáfu af Airbus 380 sem um getur. Venjulega eru þessar tveggja hæða vélar innréttaðar fyrir 525 farþega á þrem farrýmum.

Air Austral ákvað hinsvegar að hafa bara eitt almennt farrými með sætum fyrir 840 farþega.

Air Austral er með höfuðstöðvar á smáeynni Réunion. Eyjan tilheyrir Frakklandi. Hún er á Indlandshafi um 750 kílómetra austur af Madagaskar.

Réunion er um tvöþúsund og fimmhundruð ferkílómetrar að stærð. Til samanburðar má geta þess að Ísland er um eitthundrað og þrjúþúsund ferkílómetrar. Íbúar á Réunion eru um 827.000.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×