Viðskipti innlent

Enginn arður fyrir árið 2008

Tryggingafélögin greiddu engan arð út fyrir árið 2008 og aðeins eitt þeirra greiddi út arð fyrir árið 2007. Árið 2006 greiddu félögin út frá 29 til 144 prósenta arð, sem hlutfall af hagnaði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu.

Nokkuð hefur verið rætt um arðgreiðslur tryggingafélaganna, ekki síst þá staðreynd að Tryggingamiðstöðin hf. greiddi út 144 prósenta arð árið 2006. Heimilt er að yfirfæra hagnað frá fyrri árum uppfylli félögin kröfur um tilskilið lágmarksgjaldþol og það mun hafa verið gert í því tilfelli. Tryggingamiðstöðin greiddi ein út arð árið 2007, 2,1 milljarð króna, sem nam 48 prósentum af hagnaði.

Sjóvá-Almennar greiddu út stærstu einstöku upphæðina, 7,3 milljarða króna árið 2006, eða 61 prósent af hagnaði. Vátryggingafélag Íslands greiddi það ár út 29 prósenta arð, 1,5 milljarða.

Arðgreiðslur tryggingar­félaganna árið 2006, þegar þau greiddu öll út arð, námu að meðaltali 55 prósentum.- kóp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×