Erlent

Skotárás á Norðurbrú í Kaupmannahöfn

Skotið var á óeinkennisklæddan lögregluþjón á Norðurbrú.
Skotið var á óeinkennisklæddan lögregluþjón á Norðurbrú.
Óeinkennisklæddur lögreglumaður er særður eftir skotárás við Jægersborggade á Norðurbrú í Kaupmannahöfn fyrr í kvöld. Maðurinn hlaut skotsár á handlegg og maga. Árásin átti sér stað í hverfi þar sem fíkniefnasalar og glæpagengi ráða ríkjum.

Það var laust fyrir hálf ellefu, að dönskum tíma, sem árásin átti sér stað. Hópur óeinkennisklæddra lögreglumanna var þá á göngu þegar skothríð var hafin í átt að þeim, að því er virtist af ástæðulausu.

Lögreglumaðurinn er 43 ára. Hann er særður á maga og handlegg, en er þó ekki í lífshætti og er nú meðhöndlaður af læknum á ríkisspítalanum. Vitni sem voru á staðnum segjast hafa heyrt tíu til tólf skothvelli.

Jægersborgsgade er meðal annars þekkt fyrir fíkniefnaglæpi og en þar er einnig höfuðvígi glæpaklíkunnar AK81, sem er undirsveit Hells Angels. Lögreglan getur á þessum tíma ekki staðfest að glæpaklíkan tengist árásinni.

Tveir óbreyttir borgarar særðust einnig í árásinni, en ekki alvarlega. Annar þeirra er rappari að nafni Niarn, sem er nokkuð þekktur í Danmörku.

Lögreglan leitar nú þriggja manna sem sáust hlaupa frá vettvangi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×