Viðskipti innlent

Erlend skuldastaða þjóðarbúsins 198% af landsframleiðslu

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Seðlabankinn kynnti skuldastöðu þjóðarbúsins fyrir fréttamönnum í dag.
Seðlabankinn kynnti skuldastöðu þjóðarbúsins fyrir fréttamönnum í dag.
Heildarskuldir þjóðarbúsins í erlendri mynt nema 2.832 milljónum króna samkvæmt mati Seðlabankans sem kynnt var í dag. Seðlabankinn býst við að verg landsframleiðsla muni nema 1.427 milljónum króna á þessu ári. Miðað við þessar tölur er hlutfall skulda af vergri landsframleiðslu rúmlega 198 prósent.

Eins og komið hefur fram á Vísi og Stöð 2 er ein meginforsenda áætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sú, að erlend skuldastaða þjóðarbúsins við lok árs 2009 myndi vera af stærðargráðunni 160 prósent af vergri landsframleiðslu Íslands.

Þetta mat Seðlabankans er því afar athyglisvert í ljósi þess að skuldir ríkisins hafa verið taldar um 200 prósent. Í dag staðfesti Seðlabankinn að heildarskuldir þjóðarbúsins nemi áðurnefndum 198 prósentum af vergri landsframleiðslu. Þær skuldir innihalda skuldir ríkisins sem nema 1.520 milljónum króna eða tæplega 107 prósentum af vergri landsframleiðslu fyrir árið 2009.

Seðlabankinn tekur sérstaklega fram í mati sínu að útreikningar bankans eru mjög háðir framvindu efnahagsmála á heimsvísu, sérstaklega hvað varðar gengisáhrif. Gengisáhrifin hafa mikil áhrif á hlutfallslega greiðslubyrði miðað við landsframleiðslu í krónum talið.

Bankinn segir að talsverð óvissa ríki um þróun hagvaxtar sem mun hafa bein áhrif á tekjuöflun ríkissjóðs.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×