Viðskipti innlent

Ásmundur Stefánsson, bankastjóri Nýja Landsbankans (NBI): Byggt á nýjum grunni

Sennilega er þetta eitt furðulegasta ár síðari tíma. Ár sem einkenndist af upplausn, hófst með kröftugum mótmælum sem ekki eiga sinn líka og leiddu til afsagnar ríkisstjórnar Geirs Haarde, nýrrar ríkisstjórnar og kosninga.

Kosningarnar eyddu ekki óróanum og heiftúðugar deilur hafa áfram sett sterkan svip á árið. Það er ekki aðeins deilt á Alþingi. Ófriður geisar um allt þjóðfélagið. Fúkyrðaflaumur og óvægin ummæli um tiltekna einstaklinga er í raun og veru eitt helsta einkenni ársins 2009 og flest öll umræða er lituð af þessu andrúmslofti.

Allt eru þetta afleiðingar efnahagslegra hamfara, hruns banka, hruns alls fjármálakerfisins og fall gjaldmiðilsins sem ekki hefur tekist að stöðva, jafnvel ekki með gjaldeyrishöftum.

Sárin gróa ekki straxAlmenningur hefur þurft að horfast í augu við tekjutap, hækkandi verðlag, hækkandi skatta og atvinnuleysi. Þrátt fyrir allt er atvinnuleysi á Íslandi þó lægra en að meðaltali innan Evrópusambandsins og lægra en í Bandaríkjunum. En hrunið skilur alla eftir í sárum og það er fyrirsjáanlegt að þau sár gróa ekki strax.

Hvað Landsbankann varðar, þá er þetta ár eftirminnilegt fyrir margra hluta sakir. Við hrunið bjó gamli bankinn að miklum innistæðum - Icesave - í útibúum sínum í Bretlandi og Hollandi sem með neyðarlögunum breyttust í forgangskröfur í þrotabúið. Þar sem um útibú var að ræða en ekki dótturfélög, ber Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta á Íslandi stórfellda fjárhagslega ábyrgð vegna innistæðnanna.

Banki á nýjum grunniLandsbankinn nýi sem stofnaður var á rústum hins gamla, er að fóta sig á nýjum grunni. Endurreisa innviðina og takast á við vandamál viðskiptavina sinna, jafnt fólks sem fyrirtækja. Bankinn á allt undir því að ná sáttum við umhverfi sitt og öðlast traust til að vera í framtíðinni það leiðandi afl sem stærð hans kallar á og efnahagslífið þarf á að halda.

Starfsfólk bankans hefur gengið í gegnum mikla elda á liðnu ári en jafnframt sýnt hvað í því býr. Starfsfólkið hefur sjálft mótað gildi hins nýja banka: heilindi, virðingu, fagmennsku og eldmóð og það er mjög vel þess megnugt að bera bankann fram til nýrra tíma. Það á hrós skilið fyrir frækilega framgöngu sína á árinu og það mun ekki bregðast væntingum á árinu sem fram undan er.

endurreisn bankansNú í desember náðist samkomulag um efnahag og fjármögnun Landsbankans. Samningaviðræður voru flóknari en hjá hinum bönkunum tveimur bæði vegna stærðar bankans og stöðu viðsemjendanna, fjármálaráðuneytanna í Bretlandi og Hollandi. Niðurstaðan er ásættanleg fyrir alla. Ríkið leggur fram minna fé en upphaflega var ráð fyrir gert, kröfuhafarnir fá meira en þeir gátu vænst og Landsbankinn stendur fjárhagslega traustur og vel búinn til forystu í endurreisn og uppbyggingu íslensks efnahagslífs.

Landsbankinn tók meira til sín af eignum úr gamla bankanum en gerðist hjá hinum bönkunum og axlar á móti skuldabréf í erlendri mynt. Rekstur bankans á að standa vel undir þeirri byrði og þar sem skuldin er í erlendum gjaldmiðlum gerir hún bankanum kleift að standa undir erlendri lánsfjárþörf útflutningsatvinnuveganna. Ef vel gengur mun Landsbankinn skila kröfuhöfum viðbótargreiðslum í samræmi við árangur. Bankinn endurgreiðir því það sem hann hefur bolmagn til næstu árin, en án þess þó að þrengt sé að rekstrarhæfi hans eða möguleikum til að þjóna einstaklingum og fyrirtækjum á Íslandi. Mikilvægt er að útflutningsgreinarnar vita nú að þær eiga traustan bakhjarl í Landsbankanum.

lausnir mótast af reynsluBankarnir hafa sætt gagnrýni fyrir að fara sér hægt, einkum í samskiptum við fyrirtækin. Ég tel að bankarnir hafi gert rétt með því að gefa svigrúm og sýna bæði fólki og fyrirtækjum tillitssemi og sveigjanleika á þeim mánuðum sem liðnir eru frá hruni. Tíminn hefur verið notaður til að leita leiða.

Heimilin og fyrirtækin eru fundvísari en fjármálastofnanirnar á hvar sé hægt að hagræða og hvar skuli sækja fram. Lausnirnar urðu að mótast af reynslu. Bráðræði hefði stefnt mörgu í voða í íslensku atvinnulífi. Það hefði verið rangt að keyra illa stödd fyrirtæki umsvifalaust í gjaldþrot án frekari umhugsunar, eins og margir hafa beðið um að yrði gert. Þótt eigið fé fyrirtækis sé uppurið geta verið mikil verðmæti í starfseminni sjálfri og störfunum sem af henni leiða og gæta verður þess umfram allt að neytendur skaðist ekki ef þrengt er að samkeppni. Ég held að bankakerfið allt hafi sameinast um skynsamleg viðbrögð við erfiðri stöðu og fullyrði að ef svo hefði ekki verið, væri atvinnuleysi hér á landi að lágmarki þremur prósentum meira en það er.

Ég tel fyrirsjáanlegt að næsta ár verði erfitt en ég vænti þess að mál þróist til betri vegar á síðari hluta ársins.

Fortíðin ekki umflúinLandsbankinn hefur að stórum hluta eytt þessu ári í endurskipulagningu innanhúss, í skoðun á því hvað fór úrskeiðis og af hverju. Það hefur tekið á. Enginn hleypur frá fortíð sinni og nýtt nafn eða útlit breyta engu þar um, það geta aðeins verkin gert. Nú hefur stórum áfanga verið náð með samþykkt stofnefnahags bankans og mjög mikilvægt er að vel verði unnið úr stöðu hans, enda er framtíð Landsbankans og íslensks atvinnulífs tengd órjúfanlegum böndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×