Erlent

Silvio lætur ekki hrekja sig úr embætti

Óli Tynes skrifar
....mun ég hvergi fara.
....mun ég hvergi fara.

Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu segir að hann muni sitja áfram í embætti jafnvel þótt hann hljóti dóm í málaferlum sem nú standa yfir gegn honum.

Tvö spillingarmál eru rekin gegn forsætisráðherranum.

Stjórnlagadómstóll úrskurðaði fyrir skömmu að lög um friðhelgi sem Berlusconi lét setja standist ekki stjórnarskrána. Samkvæmt lögunum átti Berlusconi að njóta friðhelgi meðan hann gegndi embætti forsætisráðherra.

Lögin náðu einnig til annarra háttsettra embættismanna. Slík friðhelgi æðstu embættismanna er ekki óalgeng og má til dæmis nefna að íslenskir ráðherrar njóta hennar sem og alþingismenn.

Í nýrri bók eftir Berlusconi sem ítalskir fjölmiðlar hafa þegar birt kafla úr fjallar hann um hugsanlegar niðurstöður málaferlanna.

Þar kemur fram að hann hyggst ekki víkja, hvað sem tautar og raular. Forsætisráðherrann skrifar;

„Ef ég verð sakfelldur sýnir það slíkan útúrsnúning á sannleikanum að það verður mér enn ljósara hvað það er mikilvægt að ég gegni áfram embætti og standi vörð um lýðræðið og réttvísina".

Þrátt fyrir að Berlusconi hafi staðið í mikilli orrahríð undanfarin misseri er hann ennþá vinsælasti stjórnmálamaður Ítalíu. Stuðningur við hann er á milli 47 og 55 prósenta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×