Í frétt um málið á Bloomberg fréttaveitunni segir að Dubai World muni fara fram á greiðslustöðvun við kröfuhafa sína á meðan samið er um lengingu á lánum sjóðsins. Í næsta mánuði á sjóðurinn að greiða upp 3,5 milljarða dollara af „Íslam-bréfum".
Lánsmatsfyrirtækin Moody´s og Standard & Poors hafa lækkað lánshæfiseinkunnar á nokkrum fjölda fyrirtækja í eigu ríkissjóðs Dubai og segja að þau gætu metið áætlanir Dubai World sem greiðslufall (default). Lánshæfiseinkunnir þessar eru komnar í ruslflokk eða rétt þar fyrir ofan.
Dubai safnaði skuldum upp á um 80 milljarða dollara áður en fjármálakreppan skall á í fyrra, einkum í bankageira landsins, fasteignageiranum og samgöngum.
Skuldatryggingarálagið á Dubai hækkaði um 116 punkta og fór í 446 punkta samkvæmt mælingu Credit Market Analysis (CMA) og er landið komið í 6. Sæti á lista þjóða þar sem mesta hættan er talin á þjóðargjaldþroti.
Ísland er með álag upp á 388 punta í dag en er fallið úr fimmta sæti og niður í það sjöunda á lista CMA. Lettland er komið í fimmta sætið með álag upp á 577 punkta.