Erlent

Líka kreppa hjá al-Qaeda

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
„Ég er með fimm háskólagráður!“ Bin Laden er sagður skítblankur þessa dagana.
„Ég er með fimm háskólagráður!“ Bin Laden er sagður skítblankur þessa dagana.

Enginn sleppur undan kreppunni og nú eiga meira að segja al-Qaeda-hryðjuverkasamtökin í lausafjárvanda.

Breska ríkisútvarpið BBC hefur það eftir áreiðanlegum heimildamönnum að Osama bin Laden og félagar í al-Qaeda leiti nú allra leiða til að verða sér út um fjárhagsstuðning í kreppunni. Þetta gæti reynst þrautin þyngri þar sem hryðjuverkamenn eiga hvorki greiða leið að nýsköpunarsjóði né atvinnuleysisbótum og nú ku yfirdráttarheimild samtakanna vera alveg í botni.

Talíbanar eru hins vegar sagðir vera í mun betri málum þar sem heróínframleiðsla í Afganistan er víst með blómlegasta móti um þessar mundir en hún er helsta lífæð þeirra. Al-Qaeda eru hins vegar samtök og sem slík reiða þau sig á frjáls framlög í stað eiturlyfjagróða en eitthvað hefur harðnað á dalnum í frjálsum framlögum til hryðjuverkasamtaka síðan árið 2007 þegar hægt var að fjármagna nánast hvað sem var með hvaða hætti sem mönnum sýndist.

Þá berast einnig fréttir af því að shia-múslimasamtökin Hezbollah hafi líka þurft að hefja niðurskurðarhnífinn á loft og á þeim bænum grynnki menn á reikningahrúgunni með því að selja ólöglegar tónlistarupptökur, hugbúnað og smyglaðar sígarettur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×