Viðskipti innlent

Valitor fylgist með rannsókn á stuldi á kreditkortanúmerum

Valitor fylgist með rannsókn sem nú stendur yfir á stuldi á yfir hálfri milljón kreditkortanúmera hjá þjónustufyrirtækinu Network Solutions í Bandaríkjunum. Þórður Jónsson hjá Valitor segir að enn sem komið er bendi ekkert til að Íslendingar hafi lent í því að kortanúmeri þeirra hafi verið stolið.

„Þegar svona mál koma upp eru fengnir sérstakir vottaðir rannsóknaraðilar til að kanna málið," segir Þórður. „Við fylgjumst með þeirri rannsókn og ef það kemur upp að um íslensk kortanúmer hafi verið að ræða höfum við strax samband við viðkomandi."

Eins og fram kemur í frétt hér á síðunni er Network Solutions stærsti þjónustuaðili fyrir netverslanir í Bandaríkjunum og hýsir kortaviðskipti hjá 4.300 slíkra verslana. Tölvuþrjótum tókst að lauma njósna-forriti inn á netþjóna Network Solutions og stela þannig upplýsingunum.

Þórður segir að Íslendingar versli mikið á netinu eins og aðrar þjóðir og því líklegt að þeir hafi átt einhver viðskipti við eina eða fleiri af fyrrgreindum 4.300 netverslunum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×