Innlent

Öryggismálin á einn stað

Forstjórinn og ráðherrann Varnarmálastofnun var sett á laggirnar í núverandi mynd í utanríkisráðherratíð Ingibjargar Sólrúnar Gíslasdóttur, sem hér tekur í hönd Ellisifjar Tinnu Víðisdóttur, forstjóra stofnunarinnar.
                                                                                                                                                     Mynd/Víkurfréttir
Forstjórinn og ráðherrann Varnarmálastofnun var sett á laggirnar í núverandi mynd í utanríkisráðherratíð Ingibjargar Sólrúnar Gíslasdóttur, sem hér tekur í hönd Ellisifjar Tinnu Víðisdóttur, forstjóra stofnunarinnar. Mynd/Víkurfréttir

„Ráðuneytið óskar eftir samvinnu um málið við okkur og hana veitum við glöð,“ segir Ellisif Tinna Víðisdóttir, forstjóri Varnarmálastofnunar, um þá ákvörðun utanríkisráðuneytisins að leggja stofnunina af í núverandi mynd.

Utanríkisráðuneytið segir að skera eigi niður af 1.200 milljóna króna árlegum útgjöldum til Varnarmálastofnunar án þess að það bitni á varnar- og öryggisskuldbindingum þjóðarinnar. Ekki fengust svör frá ráðuneytinu í gær um það hver áhrif breytinganna kynnu að verða.

„Í mínum huga er bara tvennt sem kemur til greina. Það er að hámarka faglega getu og lágmarka kostnað,“ segir Ellisif Tinna. „Ef það að leggja stofnunina niður í núverandi mynd getur á einhvern hátt lækkað kostnað um leið og við getum staðið vörð um faglega getu og varnarskuldbindingar þá er það bara af hinu góða.“

Rætt hefur verið um að sameina Varnarmálastofnun öðrum stofnunum eða búta hana niður. Forstjórinn bendir á að enn liggi ekkert fyrir um hver útkoman verði. Fyrsti fundur verði í dag um málið með fulltrúum utanríkis-ráðuneytisins.

„Ég sem forstjóri stofnunarinnar legg áherslu á að fagmennirnir fái að taka þátt í þessari vinnu. Ég veit að utanríkisráðherrann er að leggja sig fram um að gera þetta vel og faglega og við styðjum hann að sjálfsögðu í því,“ segir Ellisif Tinna.

Að sögn forstjórans þarf að svara því hvort ætlunin sé að vera í Nató eða ekki. „Ef svarið pólitískt er það að við ætlum að vera í Nató þá fylgja því ákveðnar leikreglur að vera í þeim klúbbi. Menn geta ekki verið í klúbbi ef þeir fylgja ekki leikreglunum. Það eru engin sérkjör fyrir Ísland. Menn verða líka að spyrja sig: Vilja menn setja saman innri og ytri öryggismál og færa allt það vald á eina hendi?“ segir hún.

Þá bendir Ellisif Tinna á að Íslendingar eigi ekki sjálfir ratsjárkerfið sem Varnarmálastofnun rekur heldur sé kerfið fjármagnað af mannvirkjasjóði Nató sem lagt hafi fimmtíu til sextíu milljarða króna í kerfið.

„Ef við ætlum ekki að nota ratsjárstöðvarnar í varnartilgangi þá gætu þær einfaldlega verið teknar og settar upp annars staðar því það er eftirspurn eftir þeim hjá Nató. Til dæmis er Albanía, sem er nýgengin í bandalagið, að bíða eftir svona ratsjám,“ segir hún.

Ellisif Tinna kveðst telja að ef Varnarmálastofnun sameinist annarri stofnun eigi forstjórar beggja stofnana að víkja. Þeir geti svo sótt um nýja starfið ef þeir vilji.

„Þetta snýst ekki um stólinn minn eða mína persónu eða hagsmuni einhvers annars forstjóra eða einhvers ráðuneytis. Þetta snýst um faglega hagsmuni og þetta snýst um hagsmuni Íslands. Í mínum huga er allt annað úti.“

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×