Skoðun

Hver á að bæta fæðiskostnaðinn?

Óskar Hrafn Ólafsson skrifar um hvalveiðar

Það er orðinn árviss viðburður að talsmenn ýmissa umhverfis- og dýraverndunarsamtaka rísi upp á afturlappirnar og mótmæli takmörkuðum hvalveiðum Íslendinga. Viðkomandi samtök hafa ekki fært fram nein haldbær rök fyrir því hvers vegna ekki eigi að nýta hvalastofna með sjálfbærum hætti. Sýnt hefur verið fram á að hvalastofnar í Norður-Atlantshafi hafa stækkað mikið síðustu áratugina. Fyrir því hafa Íslendingar og fleiri fundið vegna þess mikla magns af fiski sem hvalahjörðin skóflar í sig á ári hverju.

Erlendir umhverfisverndar­sinnar geta ekki ætlast til þess að Íslendingar einir borgi fæðið fyrir þessa afræningja. Ef þeir vilja ekki að hvalir séu veiddir þá er lágmarkskrafa að þeir taki þátt í að borga fæðiskostnaðinn. Það má líkja þessu við ótta manna vegna eyðingu regnskóganna á Amazonsvæðinu. Hvert tré þar bindur tíu sinnum meira af koltvísýringi en tré á Íslandi og það er því mikið í húfi. Ekki er hægt að ætlast til þess að þeir, sem hafa atvinnu af skógarhögginu, séu sendir heim bótalaust. Þeir þurfa að lifa eins og aðrir og því er eina ráðið að greiða þeim bætur fyrir að hætta skógarhögginu.

Svo vikið sé aftur að hvalamálunum og stærð hvalastofnanna umhverfis landið þá má leiða að því líkur að hvalirnir éti nytjafisk að verðmæti tveggja milljarða evra á ári hverju. Mín tillaga er sú að erlend umhverfisverndarsamtök eða ríkisstjórnir þeirra ríkja, sem hvað harðast hafa beitt sér gegn hvalveiðum Íslendinga, borgi 70% af fæðiskostnaði hvalanna. Íslendingar geta tekið 30% á sig. Gerist þetta þá er sjálfsagt að hætta hvalveiðum. Ef ekki þá á að auka hvalveiðar og nýta stofnana með sjálfbærum hætti. Málið er einfalt. Sá, sem á kartöflu- eða kálgarð, stuggar við þeim sem stela úr garðinum. Hann skýtur gæsirnar sem leggjast á kálið. Hið sama eigum við að gera til þess að vernda nytjastofnana í hafinu sem þessi þjóð hefur lengstum lifað svo til alfarið á.

Höldum hvalastofnum í skefjum með skynsamlegum veiðum. Ef einhverjir vilja hins vegar taka þátt í að greiða fyrir fæðu þeirra þá er sjálfsagt að skoða það mál. Með nútímatækni er hægt að merkja hvali og fylgjast með ferðum þeirra með aðstoð gervihnatta. Þeir, sem tækju hvali í fæði, gætu þá fylgst með ferðum þessara dýra og því hvar þau eru að éta hverju sinni.

Höfundur er fyrrverandi skipstjóri.




Skoðun

Sjá meira


×