Innlent

Segir Bankasýsluna auka kostnað án ávinnings

Erlendur Magnússon segist ætla að ljúka sínum skyldum sem bankaráðsmaður í Landsbankanum en býst ekki við að sækjast eftir endurkjöri þegar kosið verður í nýja stjórn.
Erlendur Magnússon segist ætla að ljúka sínum skyldum sem bankaráðsmaður í Landsbankanum en býst ekki við að sækjast eftir endurkjöri þegar kosið verður í nýja stjórn.

Erlendur Magnússon, sem situr í bankaráði Landsbankans, býst ekki við að sækjast eftir endurkjöri í bankaráðið eftir að Bankasýsla ríkisins tekur til starfa.

„Það er afskaplega óljóst hver verkaskiptingin verður milli bankaráðsins annars vegar, það er stjórnar fyrirtækisins, og Bankasýslunnar hins vegar. Ég tel að þetta sé óþarfa millilag og að hlutverk bankaráðsmanna verði óskýrt. Þess vegna hef ég sagt að ég muni ekki sækjast eftir áframhaldandi setu þegar Bankasýslan tekur til starfa og kosið verður á ný í bankaráðið."

Erlendur segir bankaráð Landsbankans hafa gefið umsögn á Bankasýslu ríkisins þegar málið var til umfjöllunar á Alþingi. Bankaráðið hafi talið bankasýsluna auka kostnað án þess að ávinningurinn væri mikill.

„Hlutverk stjórnar í lögum um fyrirtæki er mjög skýrt. Það er þeirra að móta stefnu fyrirtækjanna og hafa eftirlitshlutverk með því að stjórnendur framfylgi stefnunni," segir Erlendur. „Eigendur þurfa að sjálfsögðu að hafa skýra sýn en ég sé ekki alveg tilganginn í því að setja upp heila stofnun sem á að móta eigendasýn og starfrækja hana með starfsfólki á fullum launum. Allra síst nú þegar verið er að skera niður í málaflokkum eins og mennta-, heilbrigðis- og lögreglumálum. Þá finnst mér viðbótaryfirbygging vera ansi undarleg."

Bankasýslu ríkisins er ætlað að starfa í fimm ár. Að þeim tíma loknum verður stofnunin lögð niður. Gert er ráð fyrir að yfir stofnuninni verði þriggja manna stjórn og að hún ráði forstjóra. Gert er ráð fyrir að árleg útgjöld hennar verði 70-80 milljónir króna sem greiðist úr ríkissjóði. - kh












Fleiri fréttir

Sjá meira


×