Viðskipti innlent

Almenningur væntir 10% verðbólgu eftir ár

Almenningur væntir þess að verðbólgan verði í 10% eftir tólf mánuði samkvæmt könnun sem Seðlabankinn lét gera í síðasta mánuði en niðurstöðurnar birti bankinn í gær. Þegar könnunin var gerð var verðbólgan 10,8% en nú er hún 9,7%.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að almenningur væntir þess því að verðbólgan verði svipuð eftir ár og hún er núna. Öðru gegnir um stjórnendur fyrirtækja en samkvæmt sömu könnun vænta þeir þess að verðbólgan verði komin í 4% eftir tólf mánuði og hafi því hjaðnað allnokkuð frá því sem hún er nú.

Litið tvö ár fram í tímann þá vænta heimilin þess að verðbólgan verði þá komin í 6% en fyrirtækjastjórnendur að hún verði 5%. Verðbólguvæntingar eru því miklar og langt frá því að menn trúi á 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans. Því markmiði hefur reyndar verið vikið til hliðar tímabundið og gengisstöðugleikamarkmið tekið upp í þess stað.

Fyrir ári spáðu stjórnendur fyrirtækja þess að verðbólgan yrði 10% í september í ár og höfðu þeir því rétt fyrir sér. Almenningur vænti þess hins vegar fyrir ári að verðbólgan í dag væri 14% og voru því helst til of svartsýnir á þeim tíma, en í september í fyrra var verðbólgan 14%.

Talsverður munur er oft á verðbólguvæntingum almennings annars vegar og stjórnenda fyrirtækja hins vegar. Virðist sem verðbólguvæntingar almennings mótist mest af þeirri verðbólgu sem er á þeim tíma sem könnunin er gerð en verðbólguvæntingar stjórnenda fyrirtækja mótast meira af verðbólguspám.

Verðbólguvæntingar fyrirtækjastjórnenda er nú nálægt verðbólguálagi ríkisbréfa gagnvart íbúðabréfum en það er nálgun á verðbólguvæntingar fjárfesta á skuldabréfamarkaði. Væntingar almennings um verðbólgu eftir tólf mánuði eru óbreyttar frá því að könnun á þeim var gerð síðast í júní á þessu ári.

Væntingar fyrirtækjastjórnenda hafa hins vegar aukist nokkuð en í maí á þessu ári, þegar könnun var síðast gerð á væntingum þeirra, bjuggust þeir við því að verðbólgan yrði engin eða 0% eftir tólf mánuði. Verðbólgan hefur líka verið að hjaðna hægar er spár gerðu ráð fyrir. Þess má geta að verðbólgan í maí var 11,6% og 12,2% í júní.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×