Viðskipti innlent

Jákvæður kortajöfnuður í fyrsta sinn síðan 2001

Heildarúttekt af erlendum kortum hér á landi í júní nam 6,2 milljörðum kr. í júní mánuði sem er 1,2 milljarði kr. meira en Íslendingar tóku út af sínum kortum á erlendri grundu í sama mánuði. Þetta er í fyrsta sinn síðan farið var að taka þessar tölur saman árið 2001 að kortanotkun útlendinga hér á landi hefur slegið út kortanotkun Íslendinga í útlöndum.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þessi jákvæði kortajöfnuður er góð þróun fyrir hagkerfið, enda hefur verið sterk fylgni á milli hans og þjónustujafnaðar við útlönd.

Enn er enginn bati sjáanlegur í kreditkortaveltu Íslendinga á erlendri grundu. Kortanotkun Íslendinga erlendis í júní dróst saman um 50% mæld á föstu gengi samanborið við júní í fyrra.

Er þetta svipuð þróun og verið hefur síðustu mánuði og endurspeglar vel þann samdrátt sem orðið hefur í ferðalögum Íslendinga til útlanda, sem kemur ekki á óvart í ljósi þess hversu lágt raungengi krónunnar er um þessar mundir.

Á sama tíma og eyðsla Íslendinga á erlendri grundu er að dragast saman er neysla útlendinga sem koma hingað til lands að aukast gríðarlega enda er ferðamannatímabilið nú gengið í garð.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×