Innlent

Icesave-frumvarp líklega samþykkt á miðvikudaginn

Höskuldur Kári Schram skrifar

Allt bendir til þess að Alþingi samþykki Icesave frumvarp ríkisstjórnarinnar á miðvikudag. Fastlega er búist við því að stjórnarandstaðan muni gera allt sem í hennar valdi stendur til að tefja afgreiðslu málsins.

Þriðja og síðasta umræða um Icesave frumvarp ríkisstjórnarinnar hófst á Alþingi í dag en málið var afgreitt úr fjárlaganefnd fyrir jól.

Andstaða nokkurra þingmanna Vinstri grænna við málið hefur vakið spurningar hvort ríkisstjórnin hafi meirihluta í málinu.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstri grænna, hefur enn ekki viljað gefa upp sína afstöðu en hans atkvæði gæti ráðið úrslitum. Ásmundur baðst undan viðtali í dag en sagði í samtali við fréttastofu að allt bendi nú til þess að ríkisstjórnin hafi tryggt sér meirihluta í málinu.

Þráinn Bertelsson segist ætla að styðja frumvarpið að óbreyttu.

„Ég mun vona það til síðustu stundar að ég sjái eitthvert ljós í myrkrinu sem gerir okkur kleift að hafna þessum samningi en ég væri að skrökva ef ég segðist vera bjartsýnn á það."

Ríkisstjórnin vill klára málið fyrir áramót en fastlega er búist við því að stjórnarandstaðan nýti allan þann ræðutíma sem þingsköp gera ráð fyrir.

Mun erfiðara er að beita málþófi í þriðju og síðustu umræðu á Alþingi samkvæmt þingsköpum en stjórnandstaðan getur þó talað um málið í allt að 30 klukkustundir og því ólíklegt að icesave frumvarp ríkisstjórnarinnar fari í atkvæðagreiðslu fyrr en á miðvikudag.

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra er spurð hvort ríkisstjórnin sé búin að tryggja meirihluta í Icesave málinu sagði hún: „Ég vona það. Ég veit ekki hvernig það verður, það verður bara að koma í ljós. Það verður alvarlegt áfall fyrir þessa ríkisstjórn ef hún hefur ekki meirihluta í þessu máli."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×