Viðskipti innlent

Viðskipti með hlutabréf jukust töluvert í nóvember

Heildarviðskipti með hlutabréf í nóvembermánuði námu tæpum 1.905 milljónum kr. eða 91 milljónum kr. á dag. Þessu til samanburðar var veltan með hlutabréf í októbermánuði rúmer 1.667 milljónir, eða 76 milljónir á dag.

Þetta kemur fram í yfirliti frá kauphöllinni. Þar segir að mest voru viðskipti með bréf Marels (MARL) 1.476 milljónir kr. og með bréf Össurar (OSSR) 321 milljónir kr.. Markaðsvirði skráðra félaga var 188 milljarðar kr. í lok síðasta mánaðar og hækkaði um 4% á milli mánaða.

Markaðsvirði bréfa Össurar nam rúmum 59 milljörðum kr. og er það félag stærst að markaðsvirði skráðra félaga. Næst í stærð er Marel en markaðsvirði þess nemur tæpum 38 milljörðum kr. og bréf Føroya Banki en markaðsvirði þess er tæpir 33 milljarðar kr.

Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Íslandsbanki með mestu hlutdeildina 31% (12,3% á árinu), Saga Capital með 23,8% (16% á árinu) og Arion banki með 16,5% (28,7% á árinu).

Úrvalsvísitalan (OMXI6) lækkaði um 4,1% milli mánaða og stendur nú í 778,7 stigum. Af atvinnugreinavísitölum hækkaði vísitala nauðsynjavara (IX30PI) mest eða 43,4%.

Heildarviðskipti með skuldabréf námu rúmum 213 milljörðum kr. í síðasta mánuði sem samsvarar 10,2 milljarða kr. veltu á dag. Í október mánuði nam veltan 12 milljörðum kr. á dag.

Mest voru viðskipti með styttri flokka ríkisbréfa, RIKB 10 1210 29 milljarðar kr. og þá með RIKB 11 0722 25 milljarðar kr. Alls námu viðskipti með ríkisbréf 132,4 milljörðum kr. en viðskipti með íbúðabréf námu 54,3 milljörðum kr. Heildarmarkaðsvirði skráðra skuldabréfa nam rúmum 1.305 milljörðum kr. og lækkaði um 1,7% milli mánaða.

Í nóvembermánuði var MP Banki með mestu hlutdeildina 35,5% (31,2% á árinu), Íslandsbanki með 26,5% (27,9% á árinu) og Landsbankinn með 17,4% (13,6% á árinu).








Fleiri fréttir

Sjá meira


×