Viðskipti innlent

Segir skuldaúrræði bankanna sjónhverfingar

Sigríður Mogensen skrifar

Skuldaúrræði bankanna eru talnaleikfimi, sem eiga að fá fólk til að trúa því að greiðslubyrðin sé að lækka. En hún er ekki að lækka eins mikið og gefið er í skyn, segir Marinó G. Njálsson hjá Hagsmunasamtökum heimilanna og telur að líkja megi úrræðunum við sjónhverfingar.

Á fjórða hundrað manns söfnuðust saman á Austurvelli í dag, á kröfufundi Hagsmunasamtaka heimilanna og Nýs Íslands.

Stóru bankarnir þrír hafa nú allir kynnt skuldaúrræði sín. Fréttastofa bar saman þá höfuðstólsleiðréttingu sem bankarnir bjóða:

Íslandsbanki býður upp á 25% lækkun á höfuðstóli lána í erlendri mynt og verðtryggð lán geta lækkað um allt að 10%.

Viðskiptavinir Arion banka geta fengið allt að 30% leiðréttingu á höfuðstól lána í erlendri mynt. Þá býðst þeim að höfuðstóll beggja lánategunda lækki niður í 110% af markaðsvirði.

Landsbankinn býður upp á 27% leiðréttingu erlendra lána en enga lækkun á verðtryggðum krónulánum.

Í fyrstu lítur út fyrir að bankarnir séu að bjóða gull og græna skóga og afskriftir á lánum. En öllum þessum leiðréttingum fylgir verðmiði - til dæmis hækka vextirnir og þar með greiðslubyrðin.

Marinó G. Njálsson hjá Hagsmunasamtökum heimilanna hefur kynnt sér tölurnar til hlýtar. Hann segir að heildargreiðslubyrðin sé á endanum sú sama í flestum tilfellum. Arion banki bjóði þó best, þar verði einhver lækkun á heildargreiðslum.

Ef höfuðstóllinn er hins vegar færður niður um 40% væri um raunverulegan ávinning að ræða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×