Viðskipti innlent

Bendir á að skattahækkanir muni auka verðbólguna

Greining Íslandsbanka bendir á að tillögur ríkisstjórnarinnar um að hækka skatta á eldsneyti, áfengi og tóbaki muni auka við verðbólguna.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að hallinn á ríkissjóði stefnir í 170 milljarða kr. í ár sem er 20 milljörðum kr. meira en reiknað var með í fjárlögum.

Stjórnvöld ætla að fara út í aðgerðir til að mæta þessari aukningu í halla og hafa boðað bæði niðurskurð í útgjöldum og skattahækkanir. Tillögur þess efnis verða kynntar á næstunni.

Ljóst er orðið að í þeim tillögum mun felast hækkun á vörugjöldum s.s. sérstökum sköttum á eldsneyti og áfengi. Verði þetta raunin mun það leiða til beinnar hækkunar á vísitölu neysluverðs þ.e.a.s. mældri verðbólgu.

Hversu stór sú breyting kunni að verða er ómögulegt að segja áður en nákvæm útfærsla á tillögum stjórnvalda hafa litið dagsins ljós. Eldsneyti vegur u.þ.b. 4% í vísitölu neysluverðs og áfengi og tóbak ríflega 3%. Veruleg hækkun þessara liða hefur því talsverð áhrif á vísitölu neysluverðs, og þar með verðtryggingu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×