Erlent

Lissabonsáttmálinn líklega samþykktur í dag

Kosið á Írlandi. Írar höfnuðu Lissabonsamningnum á síðasta ári, en breyttur sáttmáli var borinn undir þá í gær. fréttablaðið/AP
Kosið á Írlandi. Írar höfnuðu Lissabonsamningnum á síðasta ári, en breyttur sáttmáli var borinn undir þá í gær. fréttablaðið/AP
Talning er hafin í kosningum Íra um Lissabonsáttmálann. Búist er við að hann verði samþykktur, en Micheal Martin utanríkisráðherra sagði í morgun að útlit væri fyrir að 60% kjósenda styddu sáttmálann.

Búist er við að talningu ljúki síðdegis og niðurstaðan þá kynnt. Írar felldu sáttmálann í kosningu á síðasta ári og stefndu þar með í voða endurskipulagningu á stofnunum Evrópusambandsins, en samþykktu að ganga til atkvæða öðru sinni.

Menn í kjörstjórn í Dublin segja að í ýmsum kjördæmum borgarinnar þar sem andstaða var við sáttmálann í síðustu kosningum, sé nú stuðningur við hann og þar sem áður var stuðningur mælist hann nú enn meiri. Sáttmálinn öðlast ekki gildi nema öll aðildarríkin samþykki hann, en Írar voru þeir einu sem fellt hafa hann. Lissabonsáttmálinn, sem saminn var í Lissabon árið 2007 tekur á ákvörðunarferli sambandsins meðal annars í tengslum við stækkun þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×