Handbolti

Kassel líklega orðið gjaldþrota

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðjón Finnur Drengsson er á mála hjá Kassel.
Guðjón Finnur Drengsson er á mála hjá Kassel.

Staða Íslendingafélagsins Kassel er ekki góð og algjör óvissa með framtíð félagsins. Aðalstyrktaraðili félagsins, tryggingafyrirtækið MEG, hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta og það þýðir að Kassel er í vondum málum og líklega einnig gjaldþrota.

Peningarnir frá MEG voru 95 prósent af rekstrartekjum félagsins og því lítið eftir að spila úr.

„Það er ekki nema vika síðan okkur var tjáð að allt væri í góðu og því eru þessi tíðindi talsvert reiðarslag," sagði Guðjón Finnur Drengsson sem er einn fjögurra Íslendinga sem eru á mála hjá félaginu.

Hinir eru Jóhann Gunnar Einarsson, Daníel Berg Grétarsson og svo þjálfar Aðalsteinn Reynir Eyjólfsson félagið.

„Launin okkar eiga að vera tryggð næstu þrjá mánuði en framhaldið er óljóst. Það er alger óvissa nákvæmlega núna en útlitið er ekki gott," sagði Guðjón Finnur.

Gjaldþrot MEG hefur þegar haft áhrif á leikmenn liðsins sem meðal annars þurfa að skila bílum sínum á morgun en flestir bílar leikmanna voru greiddir af MEG. Einhverjir leikmenn gætu einnig þurft að skila íbúðum.

Guðjón segir að leikmönnum liðsins sé frjálst að fara óski þeir þess. Hann sagði að á þessari stundu væri óvíst hvað Íslendingarnir myndu gera. Þeir ættu flug til Íslands um jólin og síðan kæmi í ljós hvort þeir færu út aftur eður ei.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×