Innlent

Segir Íslendinga sjálfa hafa skert fullveldið

Íslenski fáninn blaktir við hún.
Íslenski fáninn blaktir við hún.

Guðmundur Hálfdánar­son sagnfræðingur segir að umræðan um Icesave-samninginn ætti fyrst og fremst að snúast um það hvort þörf væri á því að gera þennan samning eða ekki. Umræðan um að Íslendingar afsali sér að einhverju leyti fullveldi með samningnum sé á misskilningi byggð því afsal á fullveldisrétti sé ekki afleiðing af samningnum heldur afleiðing hegðunar stjórnvalda, bankamanna og þeirra sem ofurskuldsettu sig.

„Í þessari stöðu sem við erum í þá erum við ekki alveg fullvalda, það að þurfa að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins skerðir okkar fullveldi," segir hann. „Það er alveg ljóst að okkar efnahagsstefna er ekki fullkomlega í höndum íslenskra stjórnvalda eins og sakir standa heldur í höndum þeirra sem veita okkur þetta lán. En það er ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem gerir það að verkum að við þurfum að taka þetta lán heldur okkar eigin hegðun. Það sama á við um Icesave-samninginn, það eru ekki lánveitendur sem skerða fullveldi okkar heldur hegðunin sem gerir það að verkum að við skulum þurfa að semja við þá. Það er að segja hegðun íslenskra stjórnvalda, sem áttu að hafa eftir­lit með því sem var að gerast, bankamanna og einhverra þeirra sem skuldsettu sig of mikið. Það er þessi hegðun sem vegur að fullveldinu nú."

Hann segir að umræðan ætti fyrst og fremst að snúast um það hvort við þurfum virkilega að taka lánið. „Þeir sem halda því fram að við ættum að fara með málið fyrir dómstóla hafa enn ekki sannfært mig, því ég veit ekki fyrir hvaða dómstól væri hægt að fara með málið. En það er ekki svo að mér hugnist lánið. Þetta eru náttúrlega gríðarlegar upphæðir og það er það sem vekur mér ugg fyrst og fremst. Að öðru leyti tel ég, eftir því sem ég hef heyrt, að þarna sé um eðlilegan lánasamning að ræða."

Jakob Möller hæstaréttarlögmaður segist ekki geta séð að það styðjist við nein lögfræðileg rök að með samningnum séu Íslendingar að afsala sér neinum hluta sjálfstæðis síns eða fullveldis. „Það má ekki gleyma minnisblaði fyrrverandi ríkisstjórnar frá í október þar sem fjármálaráðherrann, fyrir hönd ríkisins, viðurkenndi skyldu Íslendinga til að greiða fyrir Icesave-skuldbindingarnar. Þáverandi forsætisráðherra lýsti því einnig yfir opinberlega að Íslendingar bæru ábyrgð á þeim. Þetta er vandamálið. Samningarnir nú eru um efndir á skuldbindingum Íslands," segir Jakob Möller.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×