Viðskipti innlent

Icelandair semur við Rússa

Icelandair samdi við rússneska flugrekandann I Fly. Mynd/ Teitur.
Icelandair samdi við rússneska flugrekandann I Fly. Mynd/ Teitur.
Icelandair og rússneski flugrekandinn I Fly hafa undirritað samning um tækniþjónustu vegna fjögurra Boeing 757 farþegaþotna, sömu gerðar og Icelandair flýgur.

Samkvæmt samningnum mun tækniþjónusta Icelandair annast alla viðhalds- og varahlutaþjónustu fyrir flota I Fly ásamt svokölluðu línuviðhaldi í Moskvu. I Fly er nýstofnað flugfélag í eigu rússnesku ferðaskrifstofunnar Tez, og munu vélarnar fljúga með rússneska ferðamenn frá Moskvu til áfangastaða í Evrópu og miðausturlöndum. Samningurinn er til þriggja ára og er áætluð velta verkefnisins um þrír milljarðar króna á samningstímanum.

„Þetta er mjög ánægjulegur samningur. Tækniþjónusta Icelandair er sérhæfð í Boeing 757 flugvélategundinni og er í fremstu röð faglega. Við erum að ná góðum árangri um þessar mundir í auknum verkefnum fyrir viðhaldsstöðina og það skapar ný atvinnutækifæri og verðmæti fyrir Icelandair. Við þurfum að bæta við okkur flugvirkjum og öðru tæknimenntuðu fólki til starfa vegna þessa samnings og teljum forsendur til frekari sóknar", segir Jens Bjarnason, framkvæmdastjóri Tækniþjónustu Icelandair, í fréttatilkynningu sem send var fjölmiðlum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×