Erlent

E.Coli-sýking í bandarísku nautahakki

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Bakteríusýking í nautahakki er að öllum líkindum orsök tveggja dauðsfalla í Bandaríkjunum en tæplega 30 hafa veikst.

Sóttvarnamiðstöðvar í norðausturhluta Bandaríkjanna greindu frá þessu í gær en þar hafa öll tilfellin nema þrjú komið upp. Nánast öruggt er talið að sökudólgurinn sé bakterían E.Coli O157 en hún framleiðir ákveðið eiturefni sem veldur mörgum skaðlegum einkennum sýkingarinnar.

Helsta smitleiðin er með menguðum matvælum og vatni en einnig er vitað um beint smit frá nautgripum í menn. Í því tilfelli sem hér um ræðir eru allar líkur á að um nautahakk sé að ræða og er tvennt látið, í New Hampshire og New York, en 28 hafa veikst. Annar hinna látnu stríddi við undirliggjandi sjúkdóm sem gerði hann veikari fyrir E.Coli-sýkingunni.

Böndin berast að Fairbank Farms-nautgripabúinu í Ashville í New York og hefur það þegar innkallað tæp 250 tonn af nautahakki vegna málsins en þar er um að ræða hakk sem var framleitt um miðjan september og fór á markaði í lok mánaðarins. Bandaríska matvælaeftirlitið mun fara yfir framleiðsluferli og öryggisstaðla Fairbank-búsins í framhaldinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×