Innlent

Fundu kannabis í bíl á Blönduósi

Um klukkan tíu í gærkvöldi var bifreið á norðurleið stöðvuð af lögreglunni á Blönduósi er hún var á leið í gegnum bæinn. Ástæða stöðvunarinnar var reglubundið „tékk" eins og segir í tilkynningu. Í bílnum fannst hinsvegar töluvert magn af fíkniefnum og sennilega um einn stærsta fíkniefnafund bæjarins að ræða hingað til.

„Um borð í bifreiðinni voru tveir karlmenn á þrítugsaldri. Grunur kviknaði um að þeir hefðu óhreint mjöl í pokahorninu og gáfu þeir heimild til leitar í bifreiðinni. Við leitina kom í ljós pakki sem falinn var í bifreiðinni. Reyndist hann innihalda á fjórða hundrað gramma af kannabisefnum þ.e.a.s. marihuana. Mennirnir voru handteknir og færðir til yfirheyrslu á lögreglustöðinni á Blönduósi," segir í tilkynningu frá lögreglunni á Blönduósi.

„Að þeim loknum voru þeir frjálsir ferða sinna eftir að annar þeirra hafði viðurkennt eign sína á efnunum. Að auki er ökumaður bifreiðarinnar grunaður um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna. Er þetta með stærri fíkniefnamálum sem að upp hafa komið hjá lögreglunni á Blönduósi. Ljóst var á öllum umbúnaði efnanna að þau voru ætluð til sölu og dreifingar á Akureyrarsvæðinu. Eru lögreglumenn á Blönduósi því ákaflega stoltir af því að hafa komið í veg fyrir þá ætlan," segir að lokum.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×