Innlent

Öllum verður tryggð skólavist

Framhaldsskólar landsins hafa frest fram í miðja næstu viku til að fara yfir umsóknir.
Framhaldsskólar landsins hafa frest fram í miðja næstu viku til að fara yfir umsóknir. Mynd/Vilhelm

„Allir sem eru undir átján ára aldri eiga rétt á skólavist og þeim mun verða tryggð slík vist. Það verður bara að gera það,“ segir Sigurbjörg Jóhannesdóttir, sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu, sem þessa dagana fer yfir umsóknir í framhaldsskóla landsins. Samtals bárust 4.437 umsóknir frá nemendum úr 10. bekk, sem eru um 96 prósent þeirra sem luku grunnskólanámi í ár.

Sagt var frá því í Fréttablaðinu á þriðjudag að menntaskólar neyddust til að vísa mörgum umsækjendum frá. Til að mynda verða 308 nemendur teknir inn í Verzlunarskóla Íslands af 520 umsækjendum. Svipað er uppi á teningnum hjá Menntaskólanum við Hamrahlíð, en þar verða ríflega 300 nemendur innritaðir af 470 umsækjendum.

Hver nemandi hefur kost á að sækja um fjóra framhaldsskóla. Að sögn Sigurbjargar verður unnið sérstaklega með þau tilfelli þegar umsækjandi fær ekki inngöngu í neinn þeirra fjögurra skóla sem sótt er um. „Þessum einstaklingum verður fundinn skóli. Þeir sem sækja um bóknám fara í bóknámsskóla og þar fram eftir götunum,“ segir Sigurbjörg. Spurð hvort til greina komi að finna umsækjendum á höfuðborgarsvæðinu skólapláss úti á landi segist Sigurbjörg ekki búast við að slíkt verði nauðsynlegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×