Innlent

Innflytjendur með hærra lánshæfismat

Erlendir ríkisborgarar standa betur í skilum af lánum sínum en íslenskir. Þá eru þeir með hærra lánshæfismat.fréttablaðið/vilhelm
Erlendir ríkisborgarar standa betur í skilum af lánum sínum en íslenskir. Þá eru þeir með hærra lánshæfismat.fréttablaðið/vilhelm

 Ríflega 77 prósent fólks með erlent ríkisfang á Íslandi teljast til tveggja áhættuminnstu lánshæfisflokkanna, A eða B. Hjá íslenskum ríkisborgurum er sambærilegt hlutfall 55 prósent. Þá eru erlendir ríkisborgarar í þessum flokki yngri að meðaltali en íslenskir, 36 ára á móti 55. Þá eru erlendir ríkisborgarar síður á vanskilaskrá.

Það er fyrirtækið Creditinfo sem tekur þessar tölur saman. Rakel Sveinsdóttir forstjóri segir þetta skýrast af tvennu. Annars vegar séu erlendir ríkisborgarar minna skuldsettir en annar almenningur. Þá beri þessi hópur annað viðhorf til lántöku almennt, hafi annan bakgrunn þegar að lánum kemur. Lántaka þeirra byggi meira á eignastöðu lántakandans en hér hefur þekkst og meiri varkárni ríki í þessum efnum. Erlendir ríkisborgarar teljast því að mestu mjög skilvísir greiðendur.

Rakel segir fólk erlendis víðast hvar mun betur upplýst um sína eigin greiðslugetu og stöðu gagnvart lánveitandanum. Þar sé fólk upplýst um eigið lánshæfismat og þannig umhverfi verði að koma á hér á landi.

„Hér á landi var horft til greiðslugetunnar þá stundina sem lánið var tekið. Þannig sáum við 18 ára ungmenni með bílalán og 500 þúsund króna yfirdrátt. Það sér maður ekki erlendis, því þar verðurðu að hafa byggt upp viðskiptasögu við bankann áður en þú færð lán og sú saga hefur áhrif á lánakjörin. Þú getur verið með litla veltu en staðið í skilum og fengið betri lánakjör.“

Rakel segir ekki ólíklegt að erlendir ríkisborgarar hafi þau viðhorf til lána sem þekkist erlendis og það skýri betri stöðu þeirra hér á landi. Það sé í raun mun heilbrigðara viðhorf til lántöku.

Á Íslandi eru 20.312 með erlent ríkisfang, þar af 3.090 börn undir 18 ára aldri. Pólverjar eru langflestir hér, tæplega 4.000, þá Litháar, um 1.400, og loks Þjóðverjar, en þeir eru ríflega 1.000 hér.

Stærstur hluti erlendra ríkisborgara býr á höfuðborgarsvæðinu, ríflega 15.000. Sem hlutfall af íbúum hvers landsvæðis eru hins vegar flestir erlendir ríkisborgarar á Reykjanesi, 10,1 prósent af íbúafjöldanum. Á Vestfjörðum eru erlendir ríkisborgarar 9,7 prósent íbúafjöldans. Hlutfallslega fæstir eru þeir á Norðurlandi vestra, 3,6 prósent.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×