Viðskipti innlent

Sjávarútvegsráðherra setur 5% kvótaálag á gámafisk

Til að jafna stöðu þeirra sem ljúka vigtun sjávarafla hér á landi og þeirra sem vigta afla sinn erlendis hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason nú ákveðið að frá og með næstu áramótum skuli botnfiskafli sem fluttur er óunninn á markað erlendis án þess að hafa verið endanlega vigtaður og skráður í aflaskráningarkerfi Fiskistofu reiknaður með 5% álagi til aflamarks.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Þar segir einnig : „Að svo stöddu er fallið frá hugmyndum um breytingar á reglum um vigtun og skráningu sjávarafla sem kynntar voru í október sl. og að sama skapi verða undanþágur til vigtunar erlendis ekki afnumdar. Til athugunar er þó áfram sérstakt fyrirkomulag vigtunar á fiskmörkuðum."

Fram kemur að aðilar sem fyrirhuga að flytja út óvigtaðan afla þurfa eftir sem áður að skrá afla sinn á Fjölnetið og hefur ráðherra í hyggju að setja frekari reglur um uppoðið í þeim tilgangi að hvetja til þess að viðskipti með afla geti orðið. Breyttar reglur snúa m.a. að hámarksstærð eininga sem boðin eru og gengið verður fastar eftir því að allur óvigtaður afli verði boðinn upp í gegnum Fjölnetið.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tiltekur jafnframt að stefna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum er skýr. Af því leiðir að verði þessar ráðstafanir ekki til þess að tryggja betra aðgengi fiskvinnslna að íslenskum fiski mun ráðuneytið án alls vafa grípa til frekari ráðstafana í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×