Erlent

Dönsk heilbrigðisyfirvöld auglýsa eftir farþegum vegna H1N1 veirunnar

Tamiflu hefur verið notað gegn veirunni. Mynd/ AFP.
Tamiflu hefur verið notað gegn veirunni. Mynd/ AFP.
Heilbrigðiseftirlitið í Danmörku hefur ákveðið að auglýsa eftir fimm farþegum sem voru um borð í flugvél frá New York til Kaupmannahafnar.

Í vélinni var kona sem var smituð af H1N1 veirunni. Fréttavefur Danmarks Radio segir að viðkomandi aðilar hafi allir setið í nálægð við konuna og því sé líklegt að þeir hafi getað smitast. „Við höfum ákveðið að lýsa eftir fimmmenningunum, því að við getum ekki fundið þá sjálfir. Jafnframt ráðleggjum við farþegum í flugvélinni að hafa samband við okkur svo við getum fylgst með þeim og gefið þeim ráð," segir Else Smith, hjá Heilbrigðiseftirlitinu, í samtali við DR.

„Smithætta er meiri í flugvélum en á öðrum stöðum því að sama loftið gengur í hringi um vélina," segir Else Smith. Hún segir að nokkrir farþegar í vélinni hafi fundið fyrir vægum einkennum H1N1 vírussins, sem áður var kallaður svínaflensa. „Við höfum gefið fimm manneskjum fyrirbyggjandi meðferð með Tamiflu til þess að reyna að tryggja öryggi þeirra. Við höfum einnig tekið prufur, en við bíðum niðurstaðna frá þeim," segir Else.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×