Erlent

Samkynhneigðir verða fyrir árásum í Írak

Í vor komu leiðtogar sjía-múslima saman og stefndu að því að „útrýma“ samkynhneigð.nordicphotos/AFP
Í vor komu leiðtogar sjía-múslima saman og stefndu að því að „útrýma“ samkynhneigð.nordicphotos/AFP

Árásum á samkynhneigða karlmenn í Írak hefur fjölgað mjög í skjóli afskiptaleysis stjórnvalda. Þetta segja alþjóðlegu mannréttindasamtökin Human Rights Watch, sem hafa sent frá sér skýrslu um málið.

Fyrr á þessu ári fundust lík nokkurra homma í Sadr-hverfinu svonefnda í Bagdad, þar sem sjía-múslimar eru í meirhluta. Á brjóst líkanna voru skrifuð niðrandi orð um samkynhneigða.

Í skýrslunni eru ekki nefndar tölur um fjölda morða og árása á samkynhneigðra, þar sem áreiðanlegar tölur um það eru ekki til, en vitnað er í starfsmann Sameinuðu þjóðanna sem í maí sagði þau líklega skipta hundruðum.

„Morð eru framin í skjóli refsileysis, ætluð til viðvörunar, og líkin skilin eftir á ruslahaugum eða hengd upp fólki til varnaðar,“ segir í skýrslunni.

Algengust eru þessi verk í höfuð­borginni Bagdad, en einnig hefur þeirra orðið vart í borgunum Kirkuk, Najaf og Basra.

„Það sem áður var gert við súnníta og sjíta er nú gert við samkynhneigða,“ segir læknir sem flúði frá Bagdad vegna samkynhneigðar sinnar. Í skýrslunni er haft eftir honum að nokkrir vina hans hafi verið myrtir.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×