Viðskipti innlent

Greining: Spáir 4% verðlagshækkun næstu 6 mánuði

Þótt verðbólga muni sennilega lækka niður fyrir 8% fyrir árslok mun hún taka tímabundinn kipp í upphafi næsta árs vegna hækkana hins opinbera á sköttum og gjöldum að mati greiningardeildar Arion banka. Spáir greiningin því að verðlag muni hækka um 4% á næstu sex mánuðum.

Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningarinnar. Þar segir að spáin geri ráð fyrir að stærsti hluti áhrifanna komi fram strax í janúar en í mars þegar síðari hluti skattaáhrifanna kemur fram nær verðbólgan tímabundnu hámarki í námunda við 10%. Er þetta hærri verðbólga en greiningin hefur áður gert ráð fyrir til skamms tíma m.a. vegna þess að svo virðist vera sem áhrif gengisveikingar hafi ekki að öllu leyti skilað sér út í verðlagið.

„Kaupmenn munu skila hækkununum í heilu lagi út í verðlag og meira til. Ástæðan er sú að þegar kaupmenn breyta verðum er alltaf hætta á að uppsöfnuð hækkunarþörf fái um leið að fljóta með út í verðlag," segir í Markaðspunktunum.

„Gangi spá okkar eftir mun verðlag hækka um 4% á næstu 6 mánuðum. Í apríl eða maí má gera ráð fyrir að mesti kúfurinn í verðlagshækkunum vegna opinberra hækkana verði að baki."

Hvað varðar þróunina fram að áramótum spári greiningin 0,6% hækkun verðlags í nóvember. Það sem vinnur gegn meiri hækkun verðlags er að gengi krónunnar hefur verið nokkuð stöðugt síðustu mánuði, árstíðabundnar hækkanir eru jafnan takmarkaðar í nóvember og áhrif sykurskattshækkana eru sennilega að mestu komin fram í verðlagi.

Þá er gert ráð fyrir 0,5-0,6% hækkun verðlags í desember miðað við að húsnæðisverð haldist óbreytt eða lækki lítillega.

„Hækkanir á opinberum gjöldum verða aðal drifkraftur verðhækkana í byrjun næsta ár. Útsölur munu lækka verðlag tímabundið í janúar en áhrifin ganga til baka með útsölulokum sem koma að mestu fram í febrúar," segir í Markaðspunktunum.

„Þrátt fyrir að boðaðar skattahækkanir hafi litið dagsins ljós í október með fjárlagafrumvarpinu þá lá nákvæm útfærsla á skattabreytingum ekki fyrir fyrr en í síðustu viku. Við metum að áhrif vegna skattahækkana ríkisins í upphafi árs verði í kringum 1,2% til hækkunar á vísitölu neysluverðs, þ.e. að teknu tilliti til hækkunar neysluskatts, áfengis-, olíu- og bensíngjalds."

Þessu til viðbótar telur greiningin að gjaldskrárhækkanir séu framundan hjá bæði sveitarfélögum og orkufyrirtækjum og gætu áhrif vegna þessa numið 0,35% til hækkunar á VNV á árinu.

„Við gerum ráð fyrir að vsk-hækkun ríkisins ásamt hækkunum sveitarfélaga og orkufyrirtækja komi fram að stærstum hluta í janúar, samtals um 1,1-1,2%. Við gerum þó ráð fyrir að brot af þessum áhrifum komi fram í febrúar.

Við gerum ráð fyrir að hækkun á áfengi og tóbaki ásamt eldsneyti komi að mestu leyti fram í mars og brot af þessum áhrifum í apríl," segir í Markaðspunktunum.

Þótt greiningin telji að þetta ris verðbólgunnar verði tímabundið, sem í raun megi rekja til skattahækkana, mun það ekki auka áhuga Seðlabankans á slökun peningalegs aðhalds á næstu mánuðum, greiningin gerir ráð fyrir u.þ.b. óbreyttu aðhaldi að sinni.

Þegar komið er fram á mitt ár 2010 munu hinsvegar a.m.k. tveir þættir stuðla að slökun peningastefnunnar, þ.e. lækkandi verðbólga og minni næmni efnahagsreikninga heimila og fyrirtækja fyrir gengi krónunnar - en hið síðarnefnda mun auka vægi verðbólgumarkmiðs á kostnað gengismarkmiðs í stefnu Seðlabankans, að því er segir í Markaðspunktunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×