Innlent

Sjá ekki vitglóru í áætlun AGS

Rithöfundurinn Einar Már Guðmundsson var meðal þeirra sem sátu fundinn með þeim Flanagan og Rozwadowski fyrir helgi. Fundurinn fór fram í Seðlabankanum.
Rithöfundurinn Einar Már Guðmundsson var meðal þeirra sem sátu fundinn með þeim Flanagan og Rozwadowski fyrir helgi. Fundurinn fór fram í Seðlabankanum. Mynd/Daníel Rúnarsson
Hópur Íslendinga sem sendu Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, bréf í lok október fundaði með Mark Flanagan og Franek Rozwadowski, sem fara með mál Íslands hjá AGS, fyrir helgi. Hópurinn segir enga vitglóru vera í áætlun sjóðsins.

„Okkar mat er að engar forsendur séu til staðar svo viðkomandi grundvallaratrið verði að raunveruleika. Af því leiðir að áætlun AGS er brostin. Flanagan tókst ekki að hnika til sannfæringu okkar. Því miður þá sjáum við ekki neina vitglóru í áætlun AGS," segir í samantekt sem hópurinn hefur sent fjölmiðlum.

Í samtektinni segir að á fundinum hafi hópurinn farið á kerfisbundin hátt í gegnum ákveðin atriði á fundinum. Reynt hafi verið að fá fram skýr svör byggð á staðreyndum.

Farið var kerfisbundið í gegnum neðantalin atriði á fundinum. Lögð voru fram gögn máli okkar til stuðnings. Reynt var með öllum ráðum að fá fram skýr svör byggð á staðreyndum. Eftirfarandi atriði voru tekin fyrir:

„1. Að vöruskiptajöfnuður Íslands verði jákvæður um það bil 160 milljarða á ári næstu tíu árin. Flanagan tókst ekki að sýna fram á með rökum hvernig þetta gæti orðið að veruleika.

2. Að tekjur ríkisins aukist um 50 milljarða á ári næstu árin. Flanagan tókst ekki að sýna fram á með rökum að þetta væri mögulegt.

3. Að landsframleiðsla aukist næstu árin. Flanagan tókst ekki að sýna fram á með rökum að þetta væri mögulegt.

4. Hversu hátt skuldaþol Íslands af vergri landsframleiðslu getur orðið? Flanagan snéri sig út úr því og gaf ekki skýrt svar."

Fundinn sátu fyrir hönd íslenska hópsins: Gunnar Sigurðsson, Heiða B. Heiðarsdóttir, Ásta Hafberg, Einar Már Guðmundsson, Helga Þórðardóttir, Gunnar Skúli Ármannsson, Lilja Mósesdóttir, Elías Pétursson og Ólafur Arnarson.

„Flanagan tókst ekki að hrekja gagnrýni okkar á sannfærandi hátt‚ óþægilegar spurningar leiddi hann hjá sér," segir í samtekt hópsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×