Innlent

Greinir á um hvort lagaákvæði nái aftur í tímann

Mynd/Stefán Karlsson
Ríkisskattstjóra og KPMG greinir á um hvort lagaákvæði nái aftur í tímann. Endurskoðunarfyrirtækið hefur þegar fundið leið framhjá fyrirhuguðum breytingum á lögum um tekjuskatt.

Í breytingunni felst að vaxtagjöld af skuldum sem færast yfir í kjölfar skuldsettrar yfirtöku verði ekki frádráttarbær. Í skattatíðindum endurskoðunarfyrirtækisins KPMG er fjallað sérstaklega um þessa breytingu. Forstöðumaður skattasviðs þess segir ákvæðið torvelda skuldsettar yfirtökur. Hins vegar geti vaxtagjöldin áfram talist frádráttarbær ef móðurfélag og dótturfélag sameinast ekki. Þessi réttur haldist þótt félögin séu samsköttuð.

„Lögin eru bara svona. Við erum ekki að finna einhverja leið. Ég held að tilgangurinn með þessari lagasetningu er ekki endilega að auka tekjur ríkisins miklu frekar að girða fyrir ákveðin viðskipti," segir Alexander Eðvarðsson, forstöðumaður skattasviðs KPMG, aðspurður hvort ekki sé óeðlilegt að KPMG hafi strax fundið leið til fyrirtæki til að komast hjá því að greiða umræddan skatt.

Það hefur lengi verið túlkun skattyfirvalda að vaxtagjöld af svona skuldum eigi ekki að vera frádráttarbær. KPMG bendir þó á að þau hafi ekki getað fært rök fyrir þessari afstöðu með vísan í lög. Frumvarpið staðfesti að ekki sé heimild í núgildandi lögum fyrir túlkuninni. Því sé ekkert tilefni til breytinga á skattframtölum fyrri ára.

Ríkisskattstjóri segir þessa fullyrðingu algjörlega úr lausu lofti gripna. Samkvæmt núgildandi tekjuskattslögum sé heimilt að endurákvarða skatt vegna tekna og eigna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×