Innlent

Hörður mætir ekki á mótmælin - segist samt ekki sofnaður

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hörður Torfason fagnar frumkvæði ASÍ í dag.
Hörður Torfason fagnar frumkvæði ASÍ í dag.
„Ég gleðst bara yfir því að aðrir séu að vakna til lífsins," segir Hörður Torfason tónlistarmaður og talsmaður Radda fólksins. Hörður á annríkt í dag og mun því ekki taka þátt í að mótmæla aðgerðarleysi stjórnvalda í málefnum heimilanna. Það eru samtökin Nýir tímar sem standa að mótmælunum sem hefjast á Austurvelli klukkan eitt í dag. Alþýðusambandið hefur hvatt fólk til að mæta á staðinn. Hörður segir að það sé ágætt að Alþýðusambandið sé að vakna til vitundar. „Þeir eru kannski að bæta upp eitthvað fyrir 1. mai hrópinn. Ég veit það ekki," segir Hörður.

Hörður býst allt eins við því að taka þátt í mótmælum á næstunni. „Ég er ekkert sofnaður, ég held vaktinni," segir Hörður. Hann segist þessa dagana vera að safna upplýsingum um það sem gerðist í vetur. Það verði að vera til heimildir. Hörður segist ekki vera rithöfundur þó að hann geti samið texta. Hann býst því ekki við því að hann sjálfur muni gefa út efni um mótmælin en hann muni ef til vill styðja aðra í að gera það. „Ég er bara að setja þetta upp í réttri tímaröð af því að ég á svo mikið af heimildum, bréfum og dagbókarfærslum," segir Hörður.

Hörður segir að margir eigi heimildir um mótmælin og hann viti til þess að heimildarmynd um þau muni koma út í haust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×