Viðskipti innlent

Seðlabankinn aftur með inngrip á gjaldeyrismarkaðinum

Eftir takmörkuð afskipti af gjaldeyrismarkaði í mars virðist Seðlabankinn hafa tekið til við inngrip að nýju í apríl.

Samkvæmt nýbirtum tölum bankans um veltu á gjaldeyrismarkaði nam sala hans á gjaldeyri á millibankamarkaði í apríl ríflega 1,1 milljarði kr., sem jafngildir 28% af heildarveltu á markaðinum í síðasta mánuði.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir inngrip Seðlabankans í apríl séu í takti við umsvif bankans á markaði fyrstu tvo mánuði ársins, en í janúar nam gjaldeyrissala Seðlabanka 31% af heildarveltu á millibankamarkaði með gjaldeyri og í febrúar var hlutfallið 39%.

Marsmánuður sker sig hins vegar úr hvað þetta varðar. Þá nam gjaldeyrissala bankans einungis 229 milljónum kr. sem samsvarar rúmum 7% af heildarveltu þann mánuð.

Ekki liggur fyrir hvers vegna Seðlabankinn hélt sig til hlés á gjaldeyrismarkaði í mars. Bankinn hefur þó nefnt að ætlun hans væri ekki að afstýra öllum skammtímasveiflum á gengi krónu með afskiptum af gjaldeyrismarkaði og einnig að rekja megi umtalsverða veikingu krónunnar í marsmánuði til tímabundinna þátta á borð við verulegt útflæði vaxtagreiðslna til útlendinga.

Á hinn bóginn má færa fyrir því rök að Seðlabankinn hefði að minnsta kosti átt að halda sig við sama takt inngripa í mars og hinum mánuðunum þremur. Þótt inngrip bankans hafi fram að þessu ekki höggvið stór skörð í gjaldeyrisforða hans (forðinn nam 414 milljöerðum kr. um síðustu mánaðamót) virðast þau hafa haft sitt að segja fyrir gengi krónu, enda innlendur gjaldeyrismarkaður afar grunnur undir núverandi gjaldeyrishöftum.

Því má álykta að fjarvera bankans frá gjaldeyrismarkaði í mars hafi a.m.k. ekki bætt úr skák varðandi gengisfall krónu. Í kjölfarið virðist trú margra á því að krónan sæki í sig veðrið á komandi mánuðum hafa minnkað og því á brattann að sækja fyrir Seðlabankann að fylgja eftir því skammtímamarkmiði sínu að ná fram stöðugleika og styrkingu á gengi krónu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×