Erlent

Flugmennirnir lágu yfir fartölvum sínum

Óli Tynes skrifar

Tveir flugmenn hjá bandaríska flugfélaginu Northwest lágu yfir fartölvum sínum þegar þeir flugu framhjá Minneapolis, þar sem þeir áttu að lenda.

Vélin var í farflugi í 37 þúsund feta hæð. Flugmennirnir segja að þeir hafi verið að ræða um vinnutíma sinn og hafi verið að skoða vaktatöflurnar í fartölvunum.

Þeir flugu yfir Minneapolis og voru komnir um 250 kílómetra frá borginni þegar flugfreyja kom framí og spurði hvenær væri áætlað að lenda í borginni.

Á jörðu niðri varð mikið uppnám þegar vélin flaug framhjá og flugmennirnir voru svo niðursokknir að ekkert samband náðist við þá. Óttast var að vélinni hefði verið rænt og flugherinn var látinn vita.

Þegar flugmennirnir loks vöknuðu upp við vondan draum höfðu þeir samband við Minneapolis og báðu um leyfi til að snúa við.

Þeir hafa báðir verið leystir frá störfum meðan rannsókn fer fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×