Innlent

Áfengur bjór fór óvart í matvörubúðir

Seldur með mjólk Bjórinn fór í sölu í nokkrum matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu. Fréttablaðið / valli
Seldur með mjólk Bjórinn fór í sölu í nokkrum matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu. Fréttablaðið / valli

Eitt vörubretti af áfengum Thule-bjór í hálfs lítra dósum barst fyrir mistök frá Vífilfelli í nokkrar matvöruverslanir um eða eftir helgi í stað léttöls. Eitthvað af bjórnum seldist úr verslunum, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Mistökin uppgötvuðust á mánudag. Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri hjá Vífilfelli, segir að í kjölfarið hafi bjórnum verið safnað saman. „Bjórinn og léttölið er geymt hvort á sínum stað hjá okkur inni á lager þannig að þetta á ekki að geta gerst,“ segir Guðjón. Líklega orsakist mistökin af því hversu mikið af óreyndu sumar-starfsfólki er nú við störf.

Bjórinn hafi viðkomu hjá Aðföngum, sem kemur honum í verslanir, og starfsmenn Aðfanga hafi því líka sofið á verðinum.

Bjórdósirnar bera annað strikamerki en léttölsdósirnar og finnast ekki í kerfum matvöruverslananna. Guðjón segir því nær útilokað að nokkuð hafi selst af bjórnum úr verslunum.

Heimildir Fréttablaðsins herma hins vegar að í minnst einni verslun hafi starfsmenn haldið að strikamerkin væru gölluð og fundið leið fram hjá vandanum. Nokkuð hafi verið selt úr þeirri verslun.

Guðjón segir svona nokkuð ekki hafa hent í áraraðir og að farið verði yfir verkferla í fyrirtækinu til að fyrirbyggja að þetta gerist aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×