Innlent

SPRON hunsar álit réttarfars-nefndarinnar

Hlynur Jónsson
Hlynur Jónsson

Slitastjórn SPRON er heimilt að greiða ógreidd laun rúmlega 100 starfsmanna SPRON á uppsagnarfresti, samkvæmt áliti réttarfarsnefndar. Ekki sé lagabreytinga þörf, eins og slitastjórnin telur.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir álit réttarfarsnefndar hljóta að vega þungt og vonar að það dugi til þess að slitastjórnin greiði út launin. „Slitastjórnin verður að færa fram rök ef þeir ætla að hafna þessu," segir Gylfi.

„Þetta rennir stoðum undir það sem allir vissu, að þetta er kolröng túlkun hjá slitastjórninni," segir Ólafur Már Svavarsson, fyrrum starfsmaður SPRON. „Slitastjórn er ekki stætt á öðru en að una þessari niðurstöðu."

Ef ákvörðun slitastjórnar verður að greiða ekki launin án lagabreytinga munu starfsmenn kanna sína möguleika. „Mönnum hefur dottið í hug að kanna hvort hægt sé að leggja fram vantrauststillögu á slitastjórnina," segir Ólafur.

Hlynur Jónsson, formaður slitastjórnar SPRON, segir afstöðu stjórnarinnar óbreytta. Breyta þurfi lögum til að hægt sé að greiða út launin. Það sé undir stjórnvöldum komið.

Í áliti réttarfarsnefndar er vísað til gjaldþrotaskiptalaga. Þar segir að ef skiptum er ólokið skuli greiða kröfur sem hlotið hafa viðurkenningu. Hins vegar er kröfulýsingar-fresti ólokið hjá SPRON, sem er skilyrði samkvæmt lögunum, að sögn Hlyns. Gert er ráð fyrir að sá frestur verði um sex mánuðir hjá SPRON. Því er í fyrsta lagi hægt að beita þessari lagagrein eftir sex mánuði, að sögn Hlyns.

Í lögum um fjármálafyrirtæki er mælt fyrir um að slitastjórn sé heimilt að greiða kröfur að loknum fyrsta kröfuhafafundi. Sá fundur hefur hins vegar ekki átt sér stað hjá SPRON, að sögn Hlyns.

Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar, segir álit réttar-farsnefndar staðfesta álit sitt að lagabreyting sé ekki nauðsynleg.

En eru slitastjórnin og stjórnvöld ekki að senda boltann á milli sín? „Boltinn hefur verið hjá slitastjórninni allan tímann. Mér finnst að verið sé að gera úlfalda úr mýflugu og vona að menn átti sig á því að það eru lagaheimildir fyrir þessu," segir Álfheiður.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×