Erlent

Amsterdam sekkur hægt og bítandi ofan í misráðin göng

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Göngin, eins og staðan er í dag.
Göngin, eins og staðan er í dag.

Göng undir Amsterdam, sem ætlað var að hýsa neðanjarðarlest og stórbæta samgöngur í borginni, eru að verða einn mesti höfuðverkur skipulagsyfirvalda þar.

Helenu van Gelder og þremur sonum hennar varð ekki um sel þegar heimili þeirra, fallegt 17. aldar hús í Vijzelgracht í Amsterdam, sökk um rúma 20 sentimetra í einu vetfangi. Fjölskyldan bættist þar með í hóp fórnarlamba einnar vafasömustu og dýrustu framkvæmdar sem íbúar Amsterdam hafa horft upp á. Þar er um að ræða heljarmikil göng undir borgina þvera og endilanga sem menn hafa hamast við í sjö ár og kosta nú þegar þrjá milljarða evra án þess að nálgast að vera nothæf.

Hugmyndin var að neðanjarðarlest þyti eftir göngunum borgarenda á milli og drægi örlítið úr mannmergðinni á götunum en hjólreiðafólk, gangandi vegfarendur, bílar og sporvagnar mynda þar eina óreiðukennda kös, einkum að sumarlagi þegar ferðamenn bætast við þá íbúaflóru sem fyrir er í borginni. Skipulagsyfirvöld eru hins vegar núna að átta sig á því að undirstöður Amsterdam eru úr litlu öðru en drullu, leir og vatni og þegar göng eru grafin 30 metra undir sjávarmáli í slíku umhverfi má litlu muna að stórslys verði.

Enginn hefur þó látið lífið enn sem komið er en mörg sögufræg hús eru talin í stórhættu og hafa sum þeirra sigið niður í jörðina vegna framkvæmdanna og gætu hæglega pompað alla leið niður í göngin með tilheyrandi skelfingu. Tjeerd Herrema sagði sig úr skipulagsráði borgarinnar fyrr á þessu ári í bræði sinni yfir þessari firru sem hollenska þingið samþykkti að ráðast í árið 2002, augljóslega án þess að kynna sér málið til hlítar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×