Innlent

Stálu tugum verðmætra hnakka og komu í verð

Fólkið stal tugum dýrra hnakka.
Fólkið stal tugum dýrra hnakka.

 Karlmaður og þrjár konur hafa verið ákærð fyrir að brjótast inn í allmörg hesthús á höfuðborgarsvæðinu. Þar stálu þau tugum hnakka og tókst að selja nokkurn hluta þýfisins.

Tvær kvennanna sem hlut eiga að máli eru innan við tvítugt. Þriðja konan og maðurinn eru á þrítugsaldri.

Ljóst er af ákærunum að fólkið hefur nær einungis tekið mjög verðmæta hnakka úr hesthúsunum sem það braust inn í. Hluta þeirra seldi það svo í eins konar farandsölu. Andvirðið var oftar en ekki lagt inn á reikning karlmannsins. Fólkið stal ekki einungis hnökkum heldur einnig öðrum verðmætum viðkomandi hestamennsku, svo sem beislum, járningaráhöldum, spónum og fleiru þess eðlis. Þá greip það með sér áfengi þar sem það var að hafa, svo sem bjór og koníak. Þá hafði það í einu hesthúsinu rándýr hljómflutningstæki upp úr krafsinu.

Ljóst er að verðmæti þýfisins sem hnakkaþjófarnir nældu sér í í innbrotunum hleypur á mörgum milljónum króna.

Auk þess sem ákæruvaldið krefst þess að fólkið sé dæmt til refsingar er sumt þess krafið um skaðabætur.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×