Viðskipti innlent

Bankar geri ekki út á 100 prósent ríkisábyrgð til frambúðar

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra.
Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra. Mynd/ÞÖK
Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, segir líklegt að innistæðutryggingakerfið hér á landi verði endurskoðað í samræmi við heildarendurskoðun á umgjörð innistæðutrygginga í Evrópu í framtíðinni.

Hann telur ljóst að ekki sé vænlegt ástand til frambúðar að bankar geri út á hundrað prósent ríkisábyrgð innistæðna.

Lögfest er ábyrgð Tryggingasjóðs innistæðueigenda á öllum innistæðum allt að tuttugu þúsund evrum, um 3,6 milljónir króna.

Þá segir Indriði að yfirlýsingar stjórnvalda um að staðið sé á bak við allar innistæður að fullu standi enn óbreytt.

Sú yfirlýsing hafi þó, líkt og sambærilegar yfirlýsingar í öðrum löndum, verið gefnar út í ljósi hins óvenjulega ástands í heiminum.

„Einhvertíman hljóta menn að endurskoða þetta. Það hlýtur þá að gerast í samræmi við einhverskonar heildarendurskoðun á þessu tryggingakerfi í Evrópu. Við erum ekki eyland að þessu leyti," segir Indriði að lokum.


Tengdar fréttir

Eru innistæður tryggðar að fullu?

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, tekur ekki af allan vafa um að innistæður viðskiptabankanna sem hafa staðfestu á Íslandi verði tryggðar að fullu þótt bankarnir fari úr eigu ríkisins eða í eigu erlendra aðila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×